Nauðung eða næturgreiði?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Aðalheiður Guðmundsdóttir heldur síðasta fyrirlestur haustmisseris í fyrirlestraröð RIKK fimmtudaginn 17. nóvember, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, kl. 12-13. Fyrirlestur hennar nefnist „Nauðung eða næturgreiði? Um stéttbundna misnotkun kvenna í afþreyingarbókmenntum miðalda“.

Aðalheiður er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Rannsóknir hennar snúast um sagnamenningu og miðaldabókmenntir í víðu samhengi með áherslu á fornaldarsögur og tengsl bókmennta og munnmæla.

Í fyrirlestrinum verða teknir til athugunar valdir miðaldatextar sem hver með sínum hætti varpar ljósi á ofbeldi gagnvart konum og jafnvel nauðganir. Efnið mun einskorðast við þýddar hirðbókmenntir frá 13. öld, sem og frumsamdar riddarasögur og fornaldarsögur, sem voru að mestu skráðar á 13. og 14. öld. Áhersla verður lögð á að greina eðli ofbeldisins og hvort munur sé á frásögnunum, sem endurspegla annars vegar mið- og suður-evrópska sagnahefð og hins vegar norræna. Dregnar verða fram andstæður innan sagnanna, þar sem konur eru annars vegnar settar á stall gyðja og hins vegar beittar kynferðislegri kúgun, og jafnvel ofbeldi. Í því tilliti verður sérstaklega litið til stéttarvitundar í sögunum sjálfum og hvort stétt kvennanna hafi með einhverju móti áhrif á hlutverk þeirra, kynbundna stöðu og þá framkomu sem þeim er sýnd. Spurt er að hve miklu leyti þessi munur kunni að endurspegla norrænt samfélag, eða hvort bókmenntatextarnir segi ef til vill ekki alla söguna. Í framhaldinu verður spurt að hvaða marki sé hægt að nota bókmenntatexta sem samfélagsspegil og sé það gert, hvað beri þá að hafa í huga.

Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku, er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Viðburðurinn er á Facebook!

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2016 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Fyrirlesturinn var tekinn upp og er aðgengilegur hér: