Mótun kvenleikans á Íslandi

Fimmtudaginn 6. nóvember flytur Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, félagssálfræðingur, opinberan fyrirlestur sem nefnist Mótun kvenleikans á Íslandi. Fyrirlesturinn er á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum og er öllum opinn. Hann fer fram í stofu 201 í Odda og hefst klukkan 17:15.

 

Í fyrirlestrinum verður fjallað um mótun kvenleikans og hvernig myndir hans hafa breyst milli kynslóða. Fræðilega er gengið í smiðju femínista og fræðimannsins Michel Foucault, einkum um það hvernig þekking um sjálfið og vald eru samtvinnuð. Athyglinni er beint að þeirri stöðu sem hinu kvenlega sjálfi er gefið í orðræðum samfélagsins og hvernig breytt staða konunnar hefur leitt til togstreitu milli kynslóða. Því er haldið fram að sjálfi karlsins hafi verið hyglað á kostnað kvenna, en að konur hafi, einkum á seinni árum, haft svigrúm til að ögra og jafnvel breyta ríkjandi hugmyndum.

Fyrirlesturinn byggir á doktorsritgerð Önnudísar um mótun kvenleikans, þar sem skoðað er hvernig myndir hans hafa breyst milli kynslóða. Ritgerðin byggir m.a. á innihaldsgreiningu á 209 minningargreinum sem birtust á árunum milli 1922 og 1992. Að auki voru innihaldsgreind viðtöl við 18 konur á aldrinum 16 til 88 ára, búsettar í Reykjavík og úti á landi.

 

Annadís Gréta Rúdólfsdóttir lauk doktorsprófi í félagssálfræði frá London School of Economics and Political Science árið 1997. Hún er stundakennari í kvennafræðum við Háskóla Íslands.