Málþing um Simone de Beauvoir

Í tilefni 50 ára útgáfuafmælis tímamótaverksins Hins kynsins eftir franska heimspekinginn og rithöfundinn Simone de Beauvoir stóð Rannsóknastofa í kvennafræðum fyrir málþingi föstudaginn 19. mars í Hátíðasal Háskóla Íslands, kl. 14.00-17.30.

Á þessu ári eru fimmtíu ár liðin frá því að franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Simone de Beauvoir gaf út tímamótaverkið Hitt kynið. Með rannsókn sinni á stöðu kvenna í sögulegu og félagslegu ljósi kom Beauvoir hinni svokölluðu „annarri bylgju“ femínismans af stað. Þetta áhrifamikla verk, sem mun líkast til vera minnst sem eins af byltingarritum þessarar aldar, hefur engu að síður verið umdeilt. Beauvoir hefur m.a. verið sökuð um karllegan hugsunarhátt sem geri lítið úr móðurhlutverkinu. Á málþinginu tóku fræðimenn úr heimspeki, bókmenntafræði og mannfræði á ýmsum þáttum kenninga og rita Beauvoirs.

Tilgangurinn með málþinginu var að meta við aldarlok framlag Beauvoir til heimspeki, kvenna- og kynjafræða, bókmennta og kvennabaráttu. Það er engum vafa undirorpið að hún er einn merkasti hugsuður úr röðum kvenna á þessari öld. Þessi framúrstefnukona aldamótakynslóðarinnar fór eigin leiðir í lífi sínu og verki. Hún lagði megináherslu á frelsi kvenna og að þær nytu réttar til jafns við karla. Hún andmælti því að hlutskipti þeirra sem „hitt kynið“ skerti möguleika og tækifæri þeirra. Af þeim sökum gagnrýndi hún hugmyndir um áskipaða hlutverkaskiptingu kynjanna sem byggja á líffræðilegu kyni. Með hinni fleygu setningu „maður fæðist ekki kona, heldur verður kona“ leitaðist hún við að sýna fram á að kyn væri ekki „líffræðileg örlög“ sem dæmdu konur til ófrelsis.