Málstofa um ungt fólk og vændi

Í gær var haldin málstofa til að kynna nýja norræna skýrslu um ungt fólk og vændi: Young People, Vulnerabilities and Prostitution/Sex for Compensation in the Nordic Countries: A Study of Knowledge, Social Inititatives and Legal Measures. Charlotta Holmström, aðalrannsakandi skýrslunnar og dósent við háskólann í Malmö, og Hildur Fjóla Antonsdóttir, rannsakandi hjá RIKK og doktorsnemi, kynntu efni skýrslunnar en Hildur Fjóla er höfundur kaflans um Ísland.

Málstofan var skipulögð af NIKK – Nordic Information on Gender ásamt Norrænu ráðherranefndinni, sem einnig kostaði skýrsluna. Málstofan var skipulögð í samstarfi við RIKK.

Niðurstöður Hildar Fjólu eru meðal annars að það skorti rannsóknir í málaflokkinum sem á þá einnig við um ólíka hópa eins og til dæmis ung fólk. Einnig sýnir rannsókn Hildar Fjólu að það skortir stefnumótun og úrræði fyrir fólk sem vill komast út úr vændi. Niðurstöður gefa jafnframt til kynna að lagaumhverfi og stefna stjórnvalda geti haft ólík áhrif á ólíka hópa fólks og kanna þurfi betur skörun vændis við aðrar breytur eins og neyslu vímuefna, kyn og kyngervi og ríkisfang. Einnig er fjallað um framkvæmd dómstóla í málum er varða bann við kaupum á vændi þar sem þinghöld eru iðulega lokuð og dómar ekki birtir. Í því samhengi má spyrja hvort að framkvæmd dómstóla vinni gegn þeim varnaðaráhrifum sem lögunum var ætlað að hafa til þess að draga úr eftirspurn eftir vændi.

Hægt er að nálgast skýrsluna á heimasíðu NIKK.