Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði, er þriðji fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2020 og nefnist fyrirlestur hennar „Liggja rætur vistkerfisvandans í kristnum hugamyndaheimi? Svör kristinna og femínískra vistguðfræðinga“. Fyrirlesturinn verður rafrænn og stofnaður hefur verið viðburður á Facebook þar sem hann verður birtur fimmtudaginn 12. nóvember. Að fyrirlestri loknum verður upptakan gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og youtube-rás Hugvísindasviðs.

Árið 1967 birtist grein í vísindatímaritinu Science eftir miðaldasagnfræðinginn Lynn White Jr. (1907-1987) sem nefndist „The Historical Roots of Our Ecologic Crisis“ en í henni gagnrýndi hann kristna trú og staðhæfði að hún bæri ábyrgð á náttúrueyðingu og ýmsum öðrum vanda sem steðjaði að lífríkinu. Þá var ekki farið að tala um hnattræna hlýnun, hamfarahlýnun eða loftslagsbreytingar af mannavöldum en þó beindust áhyggjur Whites einmitt að manninum og mannmiðlægri, vestrænni hugmyndafræði sem leyfði manninum að ráðskast með náttúruna af fyrirhyggjuleysi.

Skrif Whites hleyptu af stað skriðu guðfræðilegra hugleiðinga á sviði umhverfis- og vistguðfræði. Femínísk guðfræði sem þá var enn á mótunarskeiði hoppaði strax á vagninn. Einn þekktasti frumkvöðull femínískrar guðfræði, Rosemary Radford Ruether, var þar í fararbroddi með bók sína New Woman, New Earth (1975) þar sem hún gekk lengra en White og benti á tengsl samfélagslegrar og menningarlegrar kúgunar kvenna annars vegar og kúgunar náttúrnnar hins vegar. Með öðrum orðum, konur/hið kvenlega og náttúra hefðu sömu stöðu andspænis samfélagslegu og menningarlegu valdi og ofbeldi karla.

Í erindinu er fjallað um nokkur mikilvæg stef í skrifum kristinna femínista um náttúruvá og loftslagsbreytingar af manna völdum á 45 ára tímabili. Fyrir utan frumkvöðulinn Rosemary Radford Ruether (1936) verður fjallað um áherslur Sallie McFague (1933-2019), Ivone Gebara (1944) og Elizabeth Johnson (1941). Allar beita þær róttæku, femínísku túlkunarsjónarhorni í skrifum sínum um umhverfis- og loftslagsvanda. Samtímis er nálgun þeirra ólík sem og tillögur um endurskoðun og endurnýjun kristinnar guðfræði á tímum loftslagsbreytinga.

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2020 er tileinkuð femínískri sýn á loftslagsvandann.