Líðan kvenna í kjölfar efnahagskreppu

Fimmtudaginn 24. nóvember heldur Arna Hauksdóttir, lektor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, síðasta hádegisfyrirlestur haustsins á vegum RIKK sem ber heitið „Líðan kvenna í kjölfar efnahagskreppu”. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 102 á Háskólatorgi kl. 12:00-13:00.

Í gegnum tíðina hafa rannsóknir á heilsu þjóða í kjölfar efnahagsþrenginga gefið vísbendingar um aukna áhættu á líkamlegri og andlegri vanlíðan. Efnhagsþrengingar í heiminum undanfarið hafa gefið tilefni til frekari rannsókna, þar sem hægt verður að skoða hvort og hvernig heilsufarsleg áhrif eru ólík eftir löndum og hópum. Efnahagshrunið á Íslandi í október 2008 var um margt einstakt í umfangi og hraða og eru enn ófyrirséð þau áhrif sem efnahagshrunið mun mögulega hafa á heilsufar þjóðarinnar.  Þetta er efni nokkurra rannsókna við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, í samstarfi við fleiri aðila. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna aukningu í neikvæðum heilsufarslegum afleiðingum, sérstaklega fyrir konur. Í erindinu verður farið yfir niðurstöður þeirra rannsókna og framhaldsrannsóknum lýst.