Kynleg ást. Elska konur og karlar með ólíkum hætti?

Fimmtudaginn 4. nóvember heldur Halldóra Gunnarsdóttir, M.A. í kynjafræðum og sérfræðingur á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, fyrirlestur er nefnist „Kynleg ást. Elska konur og karlar með ólíkum hætti?“ Fyrirlesturinn verður haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.25-13.15.

Í erindinu mun Halldóra gera grein fyrir helstu niðurstöðum MA ritgerðar sinnar sem ber heitið „Kynleg ást. Viðtöl um ástina“. Umfjöllunarefnið er kynferðisleg eða rómantísk ást til aðgreiningar frá ást til dæmis á milli vina eða foreldra og barna. Ritgerðin byggir á eigindlegum viðtölum við átta einstaklinga. Greint er hvort lýsingar þeirra á ástinni gefi til kynna að konur og karlar elski með ólíkum hætti; hvort viðmælendur líti svo á að þeirra ást sé einstök; hvort hún breytist í tímans rá;, á hverju hún byggi; og hvaða áhrif ástin hafi á fólk. Skoðað er hvort kynin beri sig eins að í viðræðum um ástina eða ekki og hvort orðræðan sjálf um ástina sé kynjuð. Jafnframt verður velt upp spurningunni hvort sambandið milli ástarlífs og fræðalífs blómstri eða hvort ástin sé olnbogabarn í fræðunum og hvert sé hægt að beina sjónum sínum ef vilji er til að rannsaka ástina.  Ólíkindatólið Þórbergur Þórðarson gæti líka skotið upp kollinum.