Ólöf Ásta Ólafsdóttir flutti fyrirlestur á vegum RIKK fimmtudaginn 8. mars kl. 12.15 í stofu 132 í Öskju.

Frá miðbiki síðustu aldar til okkar daga hafa orðið miklar breytingar á fæðingarþjónustu og þekkingu í fæðingarhjálp. Menningarlegar breytingar hafa orðið á fæðingarstað ekki síst fyrir áhrif ráðandi þekkingar læknavísinda og tæknivæðingar samfélagsins. Fyrirlesturinn byggði á rannsókn sem unnin var til doktorsgráðu við Thames Valley University í London sem fjallar um fæðingarsögur ljósmæðra, menningu barneigna , hugmyndafræði og þekkingarþróun í ljósmóðurfræði á Íslandi. Eigindlegri mannfræðilegri aðferð og frásagnargreiningu var beitt og fæðingasögum safnað frá tæplega 40 ljósmæðrum sem starfað hafa víða um land á þessum tíma. Skilgreindar voru þrjár tegundir innri þekkingar sem þótt hefur vera kvenlæg og verið lítils virt í vísindaheiminum. Þessa þekkingu þróa ljósmæður með sér með nærveru og í tengslamyndun við konur í samhengi við annars konar þekkingarform tækni-, læknis- og lífvísinda. Í fyrirlestrinum verður lögð áhersla á kyngervi þekkingar af mismunandi tagi og út frá kynjafræðilegu sjónarhorni verður fjallað um þá þróun og baráttu sem á sér stað um eðlilegar fæðingar, hvar og hvernig skal staðið að fæðingarhjálp.

Ólöf Ásta Ólafsdóttir er forstöðumaður fræðasviðs í fæðingarhjálp og náms í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og á Kvennasviði Landspítala-háskólasjúkrahúss.