Kynheilbrigði unglinga

Þann 17. nóvember kl. 16:15 hélt Sóley Bender, hjúkrunarfræðingur, fyrirlesturinn Kynheilbrigði unglinga í stofu 101 í Odda.

Átök milli andstæðra afla, eins og heilbrigðis annars vegar og óheilbrigðis hins vegar, geta verið margs konar. Kynheilbrigði (sexual and reproductive health) og andstæða þess “kynóheilbrigði” eru þar ekki undanskilin. Vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu hvað varðar ógnanir kynheilbrigðis. Fjölmiðlar fjalla daglega um nauðganir og sifjaspellsmál. Slíkar ógnanir kalla á nauðsyn þess að líta til andstæðu þeirra. Áhersla á kynheilbrigði miðast við að stuðla að þroska einstaklingsins sem kynveru, sem er honum til heilla. Hvað varðar kynheilbrigði unglinga getur leiðin til heilbrigðs kynlífs verið vandrötuð enda fáar góðar fyrirmyndir í öllu því flóði af upplýsingum sem þeir hafa aðgang að. Myndun trausts sambands, að geta tjáð sig eðlilega við kynlífsfélaga og að bera sameiginlega ábyrgð er ekki sjálfgefið. Þótt ýmsir nái að feta sig áfram á þessari braut eru aðrir sem lenda í meiri erfiðleikum og geta margvíslegir þættir haft áhrif þar á. Í erindinu verður sjónum beint að niðurstöðum rannsókna á ýmsum þáttum kynheilbrigðis meðal íslenskra unglinga. Jafnframt var fjallað um þær tvíbentu tilfinningar sem geta einkennt kynhegðun unglinga og verið áhrifavaldar í kynheilbrigði þeirra.

Sóley S. Bender lauk doktorsprófi í heilbrigðisvísindum frá læknadeild Háskóla Íslands á þessu ári og bar doktorsritgerð hennar heitið Adolescent pregnancy. Sóley er dósent við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa beinst að kynheilbrigði, einkum meðal unglinga. Fyrirlesturinn sem hér var fluttur er byggður á doktorsritgerð hennar en einnig áralangri reynslu af kynfræðslu og ráðgjöf unglinga um kynheilbrigðismál.