Föstudaginn 15. febrúar flytur Marta Einarsdóttir, doktor í menntavísindum, fyrirlestur sem ber heitið „„Konur sem ganga menntaveginn virða ekki karla.“ Menntun giftra kvenna í Mósambík sem ógn við hefðbundnum hlutverkum kynjanna“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12.00-13.00.

Erindið byggir á etnógrafískri rannsókn frá femínísku sjónarhorni og fjallar um flókin tengsl á milli kyngervis og kynhlutverka kvenna í Mósambík og möguleikum þeirra til menntunar. Sjónum er beint að konum sem hættu námi í barnaskóla vegna þess að þær giftu sig og/eða urðu ófrískar og hvernig þær mættu andstöðu frá mökum sínum þegar þær ákváðu að fara aftur í nám. Skoðað verður hvernig sumir karlar túlka aukna menntun og atvinnuþátttöku kvenna sem ógnun við karlmennskuímyndina og þeirra kynhlutverk sem „fyrirvinna“ og „húsbóndi“. Þessi andstaða birtist á mismunandi hátt, frá úrtölum upp í andlegt og líkamlegt ofbeldi.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Öll velkomin!