Fimmtudaginn 10. febrúar heldur Sigurgeir Guðjónsson, doktorsnemi við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, fyrirlesturinn „Konur, karlar og hysteria á seinni hluta 19. aldar á Íslandi. Hugmyndir og viðhorf.“ Fyrirlesturinn verður haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.00-13.00.

Í erindinu verður fjallað um fyrirbærið og sjúkdómsgreininguna „hysteriu“ og greint frá hugmyndum lækna um það á seinni hluta 19. aldar, bæði hérlendis og erlendis. Það vekur athygli að í fyrstu voru eingöngu konur greindar með hysteriu en síðar hófu læknar einnig að greina karla með sjúkdóminn. Í erindinu verður skoðað hvaða hugmyndir lágu til grundvallar slíkra greininga og hvernig og af hverju þær hugmyndir breyttust um og upp úr aldamótunum 1900. Upplýsingar úr manntölum og árskýrslum lækna verða kynntar ásamt samtíma hugmyndum í nágrannalöndunum.