Konur í stjórnmálum: Nýir tímar í sveitarstjórnum?

Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur flutti opinberan fyrirlestur um konur í stjórnmálum þann 23. febrúar kl. 16:15-17:30.

Þann 24. október 1975 komu 25.000 konur saman til fundar á Lækjartorgi í Reykjavík til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags þeirra. Á blaði sem dreift var til fundarkvenna og -manna voru taldar upp ástæður þess að boðað var til þessarar aðgerðar. Konur voru aðeins 5% þingmanna og 4% sveitarstjórnarmanna. Um þetta leyti byrjuðu flokkarnir að viðhafa prófkjör til að velja frambjóðendur á lista sína. Nú eru konur 30 prósent þingmanna og 32% sveitarstjórnarmanna og krafan um stærri hlut háværari en nokkru sinni. Í erindi sínu leitaði Auður skýringa á hægum framgangi kvenna í stjórnmálum og hvort íslenska stjórnmálakerfið byði uppá sérstakar leiðir til að fjölga konum. Eru prófkjör hindrun fyrir konur – eða hin eina rétta leið til lýðræðis?  Auður fjallaði jafnframt um þær breytingar á áherslum í sveitarstjórnum sem vera kvenna hefur í för með sér.