Föstudaginn 1. febrúar flytur Védís Ólafsdóttir, M.A. í þjóðfræði, fyrirlestur sem ber heitið „Karlmannlegar konur? Kyn og kyngervi í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12.00-13.00.

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík var stofnuð af hópi karla árið 1950. Konur fengu ekki félagsaðild að sveitinni fyrr en árið 1995, þó að sérstök kvennadeild hafi starfað með sveitinni frá árinu 1966. Þrátt fyrir aukna þátttöku kvenna í íslenskum björgunarsveitum virðist ríkjandi ímynd björgunarmannsins vera karllæg. Hvernig útskýra félagar Flugbjörgunarsveitarinnar afstöðu til kynjanna og hvernig birtast hugmyndir þeirra um kyn og kyngervi í svörum þeirra? Í svörunum birtust, og tókust gjarnan á, ólíkar hugmyndir um eðlislægt og félagslega mótað kyngervi.  Mýkist andrúmsloft björgunarsveitanna með inngöngu kvenna? Hvaða hlutverkum sinna konur helst í björgunarsveitum? Ráðast stöður kvennanna út frá líkamlegum styrk, hvað þeim sé eðlislægt eða út frá félagslegum áhrifum samfélagsins?

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

 

Öll velkomin!