Karlmannleg ímynd hjúkrunar

Þann 7. október flytur Þórður Kristinsson mannfræðingur og stundakennari við HÍ fyrirlesturinn Karlmannleg ímynd hjúkrunar.

Karlar eru rétt rúmlega 1% starfandi hjúkrunarfræðinga á Íslandi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hluta af meistararitgerð Þórðar Kristinssonar um upplifun karlhjúkrunarfræðinga í starfi og í íslensku samfélagi. Í ritgerð sinni skoðar Þórður sýnileika og upplifun karla í hjúkrun í sögulegu samhengi, út frá viðtölum og vettvangsrannsóknum þar sem lögð er áhersla á kyn sem áhrifaþátt í stöðu þeirra sem hjúkrunarfræðinga. Hugtökunum eðlishyggja, ráðandi karlmennska og kynlegt félagslegt auðmag er beitt til þess að skoða hugmyndirnar sem liggja að baki kynbundinni mismunun gagnvart körlum í hjúkrun.

Erindið tekur aðallega á mismunandi ímyndum hjúkrunar og hvernig karlar í starfinu staðsetja sig út frá þeim og líta á hjúkrun út frá eigin forsendum. Þar takast á staðalmyndir hjúkrunarfræðinga í dægurmenningu okkar, í orðræðum samfélagsins og í ímyndunarsköpun hjúkrunarfræðinganna sjálfra.

Farið verður yfir hvernig ímyndin af stétt hjúkrunarkvenna var mótuð meðal annars af Florence Nightingale og fylgjendum hennar á Viktoríutímanum og hvernig sú ímynd var miðlæg í uppgangi hjúkrunar á Íslandi. Þá verður skoðað hvernig áherslur hjúkrunar færðust frá því að hjúkrunarfræðingar ættu umfram allt að vera ,,góðar konur? yfir á áherslu á nám og sérfræðiþekkingu. Út frá því efni verður fjallað um hvernig ímynd hjúkrunar togast á milli þessara tveggja póla og hvernig karlar í hjúkrun virðast varla vita í hvorn fótinn þeir eiga að stíga þegar talið berst að virðingu hjúkrunar.

Ímynd hjúkrunar og ímynd karlmennsku virðist ekki í fljótu bragði eiga mikla samleið. Karlar sem fara í hjúkrun eru taldir óeðli(s)legir af þeim sem þekkja ekki hjúkrun. Ríkjandi skoðun samfélagsins virðist vera sú að í hjúkrun sé ekkert sem höfðar til karla. Vegna þessa gætir stundum misskilnings á kyngervi karl-hjúkrunarfræðinga. Talið er að karlar í hjúkrun hljóti að vera sérlega kvenlegir fyrst þeir beita sér á sviði þar sem konur eru svo til allsráðandi. Karlar eiga eðli(s)lega að hafa áhuga á karlkenndum hlutum. Innan stéttarinnar finna þeir fyrir sömu hugmyndum þar sem þeir eru hvattir til þess að nýta sér karlkennt félagslegt auðmagn sitt sem þeir og gera.