Jafnrétti – fyrir hverja(r)?

Fimmtudaginn 21. september verður Rannveig Traustadóttir, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands, með rabb á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum í stofu 201, Odda, kl. 12-13. Rabbið ber yfirskriftina Jafnrétti“ – fyrir hverja(r)? Erindið fjallar á gagnrýninn hátt um hið rómaða norræna jafnrétti.

Bent verður á afleiðingar þess að „jafnrétti“ er yfirleitt skilgreint á einhæfan hátt sem „jafnrétti kynjanna“ og ekki hugað að misrétti og mismunun sem byggir á öðrum félagslegum þáttum. Meginhluti erindisins fjallar þó um hvernig hinar þröngu skilgreiningar á „jafnrétti kynjanna“ hafa orðið til þess að jafnréttið hefur yfirleitt ekki náð til þeirra kvenna sem búa við mest misrétti. Erindið byggist á rannsókn með konum í þremur minnihlutahópum á Íslandi: Lesbíum, innflytjendakonum og fötluðum konum. Þrátt fyrir að konurnar í þessum hópum séu afar ólíkar deila þær þeirri reynslu að búa við félagslega útskúfun í íslensku samfélagi. Það er hin sameiginlega reynsla kvennanna af misrétti og mismunun sem fjallað verður um í erindinu. Dregið verður fram hvaða áhrif þetta hefur á daglegt líf kvennanna og bent á nauðsyn þess að stefnumótun og starf að jafnrétti kynjanna nái til allra kvenna.

Rannveig Traustadóttir er félagsfræðingur og dósent við félagsvísindadeild Háskóla Íslands þar sem hún kennir eigindlegar rannsóknaraðferðir, kynjafræði, fötlunarfræði og menningarlegan margbreytileika. Nýjasta bók hennar er Women with intellectual disabilites: Finding a place in the world (London: Jessica Kingsley, 2000), alþjóðlegt verk sem hún ritstýrir ásamt áströlsku fræðikonunni Kelley Johnson.