Þann 27. mars kl. 12:00-13:00 flytur Nína Rós Ísberg mannfræðingur fyrirlesturinn Íslenskun erlendra kvenna. Aðlögun þýskra kvenna að íslensku samfélagi í stofu 101 í Lögbergi.

Rabbið er kynning á rannsókn sem beinist að þýskum konum sem komu til Íslands 1949 sem vinnuafl, aðallega í landbúnaði og giftust hér og eignuðust fjölskyldur. Rannsóknin byggir á minningum þessara kvenna um upplifun þeirra fyrstu árin og reynslu þeirra af aðlögun við íslenskt samfélag og hvernig nánasta umhverfi brást við með beinum eða óbeinum hætti við að gera þær hæfar sem mæður íslenskra barna og góðar íslenskar húsmæður og eiginkonur. Rannsóknin beinist að sjálfsmynd kvennanna, hvernig hún birtist nú rúmum 50 árum seinna, tengslaneti þeirra og hvernig tækninýjungar hafa auðveldað samskipti milli landa. Síðast en ekki síst beinist hún að því hvernig sjálfsmyndin endurspeglast á hlutgeran hátt í nánasta umhverfi kvennanna, heimilinu.

Nína Rós lauk B.Sc. prófi í mannfræði frá University College og leggur nú stund á doktorsnám í sama fagi við University of London.