Á fimmtudaginn 27. október hélt Pétur Pétursson guðfræðingur fyrirlestur um ástir og hugsjónir Aðalbjargar Sigurðardóttur (1887-1974) en hún var um áratuga skeið í framvarðarsveit í baráttunni fyrir réttindum kvenna og hagsmunum barna og unglinga. Hún lét til sín taka í þjóðmálum og menntamálum í anda aldamótakynslóðarinnar sem mótaðist af sjálfstæðisbaráttunni og ungmennafélagshreyfingunni.

Í erindinu var einkum fjallað um trúarreynslu Aðalbjargar og köllun hennar í þjónustu kærleikans. Hún var þeirrar gerðar að ekki er hægt að aðgreina starf hennar að félagsmálum frá trúarsannfæringu hennar en í þeim efnum fór hún ekki troðnar slóðir. Aðalbjörg var móðir guðspekihreyfingarinnar á Íslandi og störf hennar að félagsmálum voru innblásin af hugsjónum hennar jafnvel eftir að hún sagði formlega skilið við þá hreyfingu.