Í veröld kvenna: Karlar á kvennavinnustöðum

Þann 8. mars flytur Steinunn Hrafnsdóttir erindið Í veröld kvenna: Karlar á kvennavinnustöðum.

Íslenskur vinnumarkaður einkennist meðal annars af því að meirihluti kvenna og karla vinnur störf þar sem hitt kynið er í minnihluta eða ekki til staðar. Til dæmis vinnur meirihluti kvenna á Íslandi í opinberum stofnunum við svokölluð kvennastörf þar sem karlar eru í minnihluta (Konur og karlar, 1997). Mun fleiri konur en karlar vinna við félagsþjónustu og hið sama má segja um grunnskólakennslu, leikskólakennslu, hjúkrun og störf á sviði bókasafns- og upplýsingafræði. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar um karla sem starfa á vinnustöðum þar sem konur eru í meirihluta.

Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar benda til þess að karlar á kvennavinnustöðum séu hlutfallslega margir í stjórnunarstörfum og komist skjótar og í hærri stjórnunarstörf en konurnar. Einnig virðast þeir leita í ákveðin störf innan greinanna sem samrýmast frekar hinni hefðbundnu karlmennskuímynd.

Viðhorf til karla á kvennavinnustöðum er yfirleitt jákvætt og starfssystur þeirra vilja gjarnan fjölga þeim á vinnustöðunum. Þrátt fyrir þetta gætir einnig ákveðinnar tvíbendni gagnvart körlunum sem birtist m.a. í því að þeir eru oft álitnir öðruvísi en aðrir karlmenn og stundum er talið að þeir séu samkynhneigðir (sjá t.d. Balloch et al 1995; Lambert, 1994; Zuns, 1995; Benediktsson, 1994; Hume et al., 1998;Williams, 1995; Hrafnsdóttir, 2000).

Fyrirlesturinn byggir á niðurstöðum eigindlegrar og megindlegrar rannsóknar á vinnuumhverfi stjórnenda í félagsþjónustu á Íslandi. Hluti af þeirri rannsókn fólst í eigindlegum viðtölum við stjórnendur í félagsþjónustu þar sem meðal annars var fjallað um viðhorf og reynslu karl- og kvenstjórnenda til karla sem starfa við félagslega þjónustu. Rannsóknarniðurstöður verða bornar saman við erlendar og innlendar rannsóknir á körlum sem starfa við hjúkrun, leikskóla- og grunnskólakennslu og á sviði bókasafns- og upplýsingafræði.