Þann 13. mars kl. 12-13 heldur Þorgerður Þorvaldsdóttir kynja- og sagnfræðingur fyrirlesturinn Í hár saman – kynjamenning á hárgreiðslu- og rakarastofum í stofu 101 í Lögbergi.

Hárgreiðslukonur og rakarar af gamla skólanum og hársnyrtifólk nútímans hafa öll haft það að atvinnu sinni að fegra hárið og snyrta. Fram eftir 20. öld var kynjaskiptingin í fögunum skýr. Með fáeinum undantekningum var hárgreiðslustofan kvennaheimur, en rakarastofan vettvangur karla. Á nútímahársnyrtistofum hafa hinir kynjuðu heimar hinsvegar blandast, gamalgrónar hugmyndir um kyngervi móta þó ennþá kjör og viðhorf til stéttarinnar.

Fjallað verður um ímynd stéttanna og það hvernig kyngervi markaði bæði starfsævi og kjör beggja stétta. Hárgreiðsluævin var stutt og hröð, algengt var að stúlkur færu kornungar í nám og væru farnar að reka eigin stofu innan við tvítugt. Móðurhlutverkið átti að hafa forgang og því var algengt að konur hættu störfum eða tækju sér hlé eftir að þær voru komnar með eigin fjölskyldu. Þær sem syntu á móti straumnum og sameinuðu atvinnurekstur og fjölskyldulíf þurftu hinsvegar iðulega að glíma við fordóma samfélagins um eðlileg hlutverk kynjanna. Hárgreiðslukonur þurftu til dæmis ávallt að kljást við „fyrirvinnuhugmyndina“ í allri sinni kjarabaráttu og þær voru iðulega spurðar hvort þær væru ekki vel giftar þegar þær fóru fram á hækkun á verðtöxtum eða aðrar kjarabætur. Til samanburðar var opnunartími stofanna helsta baráttumál rakara um áratugaskeið.

Þá verður hugað að þeim kynbundnu menningarkimum sem einkenndu annarsvegar rakarastofur og hinsvegar hárgreiðslustofur. Rakarastofan hefur löngum haft orð á sér fyrir að vera einskonar fréttastofa í samfélaginu. Þar komu menn saman og skeggræddu „hörðu málin“, pólitík, atvinnuástand og önnur þjóðfélagsmál. Sú þjónusta sem veitt var á hárgreiðslustofum minnir hinsvegar um margt á sálfræðiþjóustu. Samtöl voru iðulega á mjög persónulegum nótum og hárgreiðslukonur fengu „margt að heyra og yfir mörgu að þegja. “ Í báðum tilfellum eru þó sambönd fagfólks og kúnna langtímasambönd, sem stundum er viðhaldið kynslóð fram af kynslóð, eða þar til dauðinn aðskilur.

Nútímahársnyrtistofa er hinsvegar kynjablandaður heimur. Kúnnahópurinn er kynjablandaður og þjónustan sem karlar og konur eru að leita eftir verður stöðugt áþekkari. Þá er starfsmannahópurinn orðin blandaðri og oft vinna karlar og konur hlið við hlið á stofum. Konur eru enn í miklum meirihluta innan hársnyrtifagsins. Þeir karlmenn sem þar hafa haslað sér völl eru þó oft á tíðum meira í sviðsljósinu og í dag hafa nokkrir ungir strákar úr hársnyrtifaginu skipað sér í hóp „fræga fólksins“ á Íslandi. Spurt er hvernig standi á þessum miklu vinsældum strákanna. Eru karl-hársnyrtar færari og djarfari fagmenn, eða eru viðurkennandi augnaráð og athugasemdir þeirra þyngri á metum en samskonar tillögur frá konum í faginu. Leita konur enn eftir staðfestingu á sínu eigin ágæti í viðurkennandi augnaráði karla (the male gaze). Í þessu samhengi verður sérstaklega hugað að mýtunni um að bestu hársnyrtarnir séu hommar.

Þorgerður Þorvaldsdóttir er MA í kynjafræðum frá The New School of Social Research í New York. Hún er sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni.

Þorgerður hefur, ásamt Báru Baldursdóttur sagnfræðingi, unnið að sögu háriðna á Íslandi. Bókin verður hluti af ritröðinni Safn til Iðnsögu Íslendinga.