Fimmtudaginn 15. mars heldur Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri, hádegisfyrirlestur sem ber heitið „Hvers vegna er úthlutað meira rannsóknarfé til karla en kvenna á Íslandi?”. Fyrirlesturinn fer fram í Öskju, stofu 132, kl. 12:00-13:00.

Það er ástæða til að vera gagnrýnin á sjóði Rannís (einkum Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð) og mótmæla tillögum um að auka til þeirra fé áður en gerð er nauðsynleg bragarbót á starfsemi þeirra. Hjá Rannsóknasjóði skiptast völd og áhrif mjög ójafnt á kynin og engin tilraun er gerð til þess að jafna stöðu þeirra. Völd og áhrif sem peningum fylgja fara á stöðugt færri hendur verkefnastjóra  og í meir en 70% tilvika til karla. Staðan hjá Tækniþróunarsjóði er enn verri en þar hefur kynjahlutfallið versnað með hverju ári sem líður eða frá því að úthlutun fari í 77.1% tilvika til verkefnastjóra sem eru karlar (2007), 81.8% (2008), 87.4% (2009), 92.9% (2010), og 92.9% árið 2010. Verkefnastjórar sem eru konur fengu 7.1%.

Þarf þetta að vera svona? Eru konur eitthvað síðri vísindamenn? Er þeim síður treystandi? Ef við lítum á Rannsóknanámsjóð (sem hugmyndir eru um að leggja niður og sameina Rannsóknasjóði) er mun eðlilegra kynjahlutfall og raunar konum í vil eða 41.3% karlar og 58.7% konur. Ef við lítum á launasjóð fræðarithöfunda þá er kynjahlutfallið á undanförnum 4 árum 50% karlar og 50% konur. Hér hefur verið tekin ákvörðun um jafnrétti kynjanna! Ég lít svo á að núverandi kerfi líði fyrir öfgasinnaðar hugmyndir um að það sé í lagi, og allt að því eftirsóknarvert, að völd og áhrif safnist á sífellt færri hendur og að það sé allt í lagi að það séu í vaxandi mæli karlmannshendur. Samkvæmt lögum nr. 28 frá 1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, eða jafnréttislögunum líkt og þau eru almennt kölluð, segir meðal annars: „Tilgangur laga þessara er að koma á jafnrétti og jafnari stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.“ Í fyrirlestrinum verða ræddar aðgerðir til að breyta ofangreindum staðreyndum.