Hvern er verið að lækna? Konur og tæknifrjóvgun

Þann 27. febrúar kl. 12:00-13:00 heldur Svanborg Sigmarsdóttir fyrirlesturinn Hvern er verið að lækna? Konur og tæknifrjóvgun í stofu 101 í Lögbergi.

Glasafrjóvganir á Íslandi hófust 1991 og síðan þá hafa um hundrað börn fæðst árlega í kjölfar slíkra aðgerða. Í kringum 40% tilfella þar sem getnaður tekst ekki hjá pörum er ástæðuna að finna í skertri frjósemi karla. Í einstaka tilfellum er hægt að bregðast við þessu með hormónameðferð sem byggir á að örva eistun til að framleiða sæði en í langflestum tilfellum er brugðist við með hefðbundnari glasafrjóvgunarmeðferð. Á þann hátt er verið að „lækna“ skerta frjósemi karla í gegn um konur í stað þess að beina rannsóknunum og meðferðum að þeim sem eiga við vandamálið að stríða, þ.e. körlunum.

Í þessu rabbi verður velt upp spurningum hvort þetta endurspegli þá hugmynd að konur séu „aðalgerendur“ í barneignum, hvort þetta lýsi valdastöðu kvenna í frjósemisrannsóknum og hvort áhættan fyrir konur samfylgjandi glasafrjóvgun sé ásættanleg þegar frjósemi konunnar er ekki skert.

Svanborg Sigmarsdóttir er stjórnmálafræðingur og vinnur að rannsóknum hjá Borgarfræðasetri. Hún hefur einnig starfað sem stundakennari við stjórnmálafræðiskor félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, þar sem hún m.a. kenndi námskeiðið „Á líf-siðfræði hlutverk í stjórnmálum?“