Þann 15. febrúar flytur dr. Ólína Þorvarðardóttir fyrirlesturinn Hverjum bálið brennur – aðild kvenna að íslenskum galdramálum.

Í þessum fyrirlestri fjallar dr. Ólína Þorvarðardóttir um aðild íslenskra kvenna að galdramálum sautjándu aldar. Hér á landi voru konur í miklum minnihluta saksóttra og líflátinna galdramanna öndvert því sem gerðist í öðrum löndum Evrópu. Í nágrannalöndum okkar virðist sem kirkjulegar kenningar um andlegt og líkamlegt samband konunnar við djöfulinn hafi verið ein undirrót þess ofstækis sem braust út í evrópskum galdramálum og leiddi til þess að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem saksóttir voru og brenndir fyrir galdur reyndust konur.

Í fyrirlestrinum fjallar Ólína um mynd hinnar íslensku galdrakonu í fornbókmenntum, munnmælum og málskjölum með hliðsjón af myndbirtingu, aðild og afdrifum kynsystra þeirra í galdramálum á meginlandinu. Hún leitast við að skilgreina í hverju þessi munur er fólginn og hvaða áhrif hann hafði á afdrif íslenskra kvenna á brennuöld.