Prófessor Karen Ross flutti fyrirlestur föstudaginn 13. apríl kl. 12.00 – 13.30 í Norræna húsinu sem hún kallaði: Hvar fékk hún þessa skó? Stjórnmálakonur sem fréttaefni. Fyrirlesturinn var fluttur í boði Blaðamannafélags Íslands, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við HÍ og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ.

Karen Ross, sem er prófessor í fjölmiðlafræðum og hefur skrifað fjölda bóka m.a. um þetta viðfangsefni, ræddi m.a. eftirfarandi spurningar: Hvernig er umfjöllun fjölmiðla um stjórnmálakonur? Hvaða aðferðum beita fjölmiðlar? Hvaða orð eru notuð og hvernig myndir eru sýndar þegar fjallað er um konur í stjórnmálum? Er fremur fjallað um þær sem konur en sem þátttakendur í stjórnmálum í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika þeirra? Hvaða aðferðum geta stjórnmálakonur nýtt sér gagnvart áhugalausum eða jafnvel fjandsamlegum fjölmiðlum? Eru fjölmiðlar að taka sér sífellt meira vald við að túlka stjórnmál og móta skoðanir (þar á meðal um konur) í stað þess að vera hlutlausir, réttlátir og upplýsandi? Hvað þarf að gera til að bæta umfjöllun um stjórnmálakonur og pólitísk ferli yfirhöfuð þannig að konur sem aðrir njóti sannmælis? Karen Ross er prófessor í fjölmiðlafræðum (Mass communication) við Háskólann í Coventry í Englandi. Hún hefur skrifað og ritstýrt fjölda bóka sem m.a. eru kenndar við Háskóla Íslands, s.s. Women and Media. International Perspectives (2004), Women, Politics and Change (2002) og Black Marks: Minority, Ethnic Audiences and Media (2001).