Þann 30. janúar kl. 12:00-13:00 halda Kristjana Stella Blöndal og Þorgerður Einarsdóttir hádegisfyrirlestur í stofu 101 í Lögbergi.

Síðastliðinn áratug hafa reglulega birst kannanir hér á landi sem sýna mismikinn launamun karla og kvenna. Í þessum könnunum er gerður greinarmunur á skýrðum og óskýrðum launamun eftir kyni. Þótt byggt sé á sambærilegri aðferðafræði er mismunandi eftir könnunum hvaða þættir eru notaðir til að skýra kynbundinn launamun. Lengi vel gekk gagnrýni fræðimanna út á að ekki væri tekið tillit til allra þátta sem skiptu máli. Leitin að skýribreytum hefur gengið of langt að margra mati. Í þessu erindi verður þessi umræða kynnt og tillaga gerð að samræmdri nálgun í launakönnunum.