Jón Ingvar Kjaran

Jón Ingvar Kjaran

Fimmti fyrirlesturinn í hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri verður fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins fimmtudaginn 3. desember kl. 12. Jón Ingvar Kjaran flytur þá fyrirlesturinn „„Hulinn þúsund slæðum“: Veruleiki samkynhneigðra karlmanna í Íran“. Jón Ingvar lauk doktorsprófi árið 2014 og er aðjúnkt og nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann vinnur að rannsóknum í hinsegin- og kynjafræðum, félagsfræði menntunar, menntunarfræðum og skóla án aðgreiningar.

Í erindinu rekur Jón Ingvar sögulega þróun kynvitundar í Íran. Enn fremur verður rætt hvernig orðræðan um homma í Íran hefur þróast á Vesturlöndum. Í þeim efnum hafa alþjóðleg samtök homma og lesbía dregið upp mjög svo svarta mynd af stöðu samkynhneigðra í Íran, lýst þeim aðallega sem fórnarlömbum frekar en virkum gerendum sem reyna að skapa sér rými fyrir líf sitt og tilfinningar. Jón Ingvar mun greina frá fyrstu niðurstöðum etnógrafískrar rannsóknar á því hvernig íranskir hommar, aðallega í Tehran, skapa sér rými, hinsegin rými á jaðri samfélagsins. Niðurstöður benda til þess að íranskir hommar, jafnt innan hins opinbera rýmis sem og einkarýmisins, finni sér leiðir til að vera þeir sjálfir og veita tilfinningum sínum útrás. Þeir eru hins vegar stöðugt meðvitaðir um kúgun og valdbeitingu samfélagsins í sinn garð sem minnihlutahóps.

Fundarstjóri er Þorvaldur Kristinsson kynjafræðingur.

Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku, er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Viðburðurinn er á Facebook.