Þann 9. apríl 2007 voru liðin 150 ár frá fæðingu skáldkonunnar Ólafar Sigurðardóttur frá Hlöðum (1857-1933). Í tilefni af því flutti Helga Kress, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, opinberan fyrirlestur um ævi og verk Ólafar á vegum Hugvísindastofnunar og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum 13. desember.

Eftir Ólöfu frá Hlöðum liggur mikið safn verka, jafnt birtra sem óbirtra. Í lifanda lífi komu út eftir hana tvær ljóðabækur, báðar með titlinum Nokkur smákvæði, sú fyrri 1888 og sú síðari 1913. Ritsafn með úrvali úr þessum bókum ásamt nokkrum ljóðum úr handritum og smásögum sem birst höfðu í tímaritum var gefið út af Jóni Auðuns 1945. Nú er í undirbúningi nýtt ritsafn með verkum hennar í umsjón Helgu Kress, og kemur það út hjá Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands í ritröðinni Íslensk rit á vormánuðum 2008. Í fyrirlestrinum verður athygli einkum beint að sjálfsævisögulegum ljóðum Ólafar, bréfaskiptum hennar við skáld og fræðimenn, óbirtum ljóðum í handritum, nýjungum í verkum hennar og viðtökum þeirra, ferli Ólafar sem konu og skálds og stöðu hennar í íslenskri bókmenntasögu.