Fæst okkar sem búum hér á Íslandi þekkjum stríð og hörmungar þess af eigin raun. Vitneskja okkar um stríð byggist að mestu leyti á því sem við lesum um í bókum og dagblöðum, eða sjáum í bíómyndum og fréttum. Vegna þess hve stríðsátök eru okkur fjarlæg eigum við erfitt með að átta okkur á því hvaða veruleiki blasir við fólki sem lendir í stríðsátökum. Af sömu ástæðu er líklegt að við hlustum á þá sem við teljum okkur fróðari um efnið og trúum orðum þeirra.

Orðræða þeirra sem eiga að teljast sérfróðir um málin er oft á tíðum sérhæfð og torskilin og við höfum engan raunveruleika til að máta hana inn í til að sjá hvað orðin merkja í raun og veru og hvaða afleiðingar það hefur þegar orðin breytast í verknað.
En eins og ástandið er í heiminum í dag er einmitt mjög nauðsynlegt að vera á varðbergi og staldra við og athuga hvort við getum komist að því hvaða þýðingu hlutirnir sem talað er um hafa í raun og veru.

Carol Cohn, sem er þekktur feministi, friðarsinni og tæknisiðfræðingur, hefur rannsakað herfræðina sem tengist kjarnorkuvopnum (nuclear strategic studies) og orðræðuna í kring um fræðin. Hún segir að með tímanum hafi hún lært hina tæknilegu orðræðu
(technostrategic language) sem notuð er á þessu sviði og í kjölfarið hafi hún farið að standa sjálfa sig að því að að hugsa á sama hátt og hún taldi sérfræðingana gera.

Reynsluna af því að vera sífellt að tala um kjarnorkusprengjur segir hún hafa verið þá að þegar hún sjálf hafi verið búin ná taki á orðræðunni hafi henni fundist eins og hún hefði einnig náð taki á tækninni og í kjölfarið minnkaði hræðsla hennar við kjarnorkustríð. Ástæðuna fyrir þessu telur Cohn vera að með orðræðunni sem notuð var um vopnin hafi þau orðið svo fjarlæg því sem tengist stríði og fylgifiskum þess.

Cohn bendir einnig á að galli við þessa tæknilegu orðræðu sé að hún lýsi aðeins stöðu og sjónarhóli þeirra sem beita vopnunum en að hún nái engan veginn til þeirra sem verða fyrir barðinu á þeim. Samkvæmt því nær hin tæknilega herfræðilega orðræða engan veginn til fórnarlamba stríðs.

Þetta má ef til vill tengja því sem stundum er kallað karllæg orðræða, þar sem karlar tala um það sem þeim sjálfum finnst mikilvægast eða áhugaverðast.

Eða eins og Simone de Beauvoir sagði: Að karlar lýstu heiminum frá þeirra sjónarhorni sem þeir rugla saman við hreinann sannleika. Konur verða því sjálfar að sveigja umræðuna inn á þær brautir sem þeim finnast mestu máli skipta.

Þótt Cohn hafi hér verið að tala sérstaklega um orðræðuna sem tengist kjarnorkuvopnum á hún einnig við um aðrar tegundir vopna sem öllu algengara er að sé beitt í stríðsátökum.

Sl. haust var haldin alþjóðleg ráðstefna um hnattvæðingu við Háskóla Íslands. Ein málstofan þar fjallaði um stríð og frið og fluttu þrír fyrirlesarar erind þar. Öll erindi málstofunnar áttu það sameiginlegt að fjalla aðallega um stríð út frá herstjórnarfræðilegum eða öðrum tæknilegum atriðum. Þegar ég segi að fjallað hafi verið um stríð út frá tæknilegum atriðum á ég við að umfjöllunarefnið var t.a.m. um breytta heimsmynd eftir 11.september og þá ógn sem heimsbyggðinni stafar af því að vopn komist í hendur hryðjuverkamanna, erfiðleikanna og togstreitunna sem upp hefur komið í Kosovo milli heimamanna og alþjóðlegs friðargæsluliðs og stöðu Sameinuðu þjóðanna nú eftir að kalda stríðinu er lokið.

Erindin í málstofunni voru öll mjög fróðleg og sögðu mér heilmikið um það sem er að gerast í heiminum og umfjöllun af því tagi sem þarna var á fullan rétt á sér og er nauðsynleg. Ég er þó þeirrar skoðunar að hana sé ekki hægt að nota eina og sér.

Umræða um stríð og frið, þar sem ekki er minnst á þær félagslegu afleiðingar sem stríð hefur fyrir einstaklinga og samfélög segir nefnilega ekki nema lítinn hluta sögunnar. En það að einskorða alla umfjöllun við tæknilega hluti og framkvæmd á tæknilegum hlutum losar fólk að miklum hluta undan því að fjalla um þær beinu afleiðingar sem stríð og hernaður hafa í för með sér. Eins og að fólk sé drepið, heimili lögð í rúst og stoðkerfi samfélaga brotin niður.

Við munum kannski eftir Persaflóastríðinu fyrir 12 árum. Í allri umfjöllun um það stríð var látið í það skína að mannfall meðal óbreyttra borgara væri nánast ekkert og að sprengjurnar væru hárnákvæmar og lentu einmitt þar sem þeim var ætlað að lenda. Þ.e. á byggingum sem þjónuðu hernaðarlega mikilvægu hlutverki fyrir Íraka. Eftir að stríðinu lauk hafa sífellt verið að berast meiri upplýsingar um að svona hafi raunveruleikinn alls ekki verið. Mannfall meðal borgaranna var mun meira en sagt hafði verið og skaðinn sem varð af sprengjuregninu varð mun meiri en maður hefði getað ímyndað sér. Ein ástæðan fyrir því hversu hörmulegar afleiðingar stríðið hafði er að sprengjur sem innihéldu sneytt úran, efni sem verður til við kjarnorkuframleiðslu, voru notaðar. Afleiðing þessa er að krabbameinstíðni meðal barna í Írak er mjög há.

Robert Fisk, pistlahöfundur á blaðinu Independent, hefur skrifað um að það sem raunverulega gerist í stríði sé aldrei sýnt. Annars vegar vegna þess að það er ekki talið við hæfi að sýna almenningi slíkar myndir og hinsvegar vegna þess að ef almenningi væri sýndur allur hryllingurinn, t.d. sundurtættir líkamar, fengist aldrei aftur neinn til þess að styðja stríðsaðgerðir.

Ég vitna í Fisk sjálfan:

„Í dag, þegar ég hlusta á hótanir George Bush í garð Íraka og skerandi siðvandar viðvaranir Tony Blair, velti ég því fyrir mér hvort þeir þekki þennan hræðilega raunveruleika. Skyldi George, sem neitaði að þjóna landi sínu í Víetnamstríðinu, hafa einhverja hugmynd um það hvernig lyktin af líkunum er? Skyldi Tony hafa minnstu hugmynd um það hvernig flugurnar eru […] sem nærast á hinum dauðu í Mið-Austurlöndum og koma svo og setjast á andlitin á okkur og skrifblokkirnar.“

Herfræðingar og sumir stjórnmálamenn eiga það sameiginlegt að nota orðræðu sem engan veginn lýsir því sem raunverulega gerist. Þeir tala um hárnákvæmar árásir á skotmörk og eyðileggingu sem hliðarverkanir svo segja má að mikill hluti orðræðunnar um stríð snúist um að nota tungumálið til að segja hluti sem eru ekki fyllilega sannir. Fáir munu sýna okkur það sem raunverulega gerist í stríði og með því að halda allri skelfingunni og hryllingnum frá okkur geta stríðsæsingamenn haldið áfram að telja okkur trú um að rétta leiðin sé að fara í stríð og gera út um ágreiningsefni með vopnavaldi.

Og hér uppi á Íslandi fáum við fréttir sem ég veit ekki til hvers annars eru ætlaðar en að kynda undir þá hugmynd að það séu sprengjurnar sjálfar sem eru merkilegar en ekki afleiðingarnar sem þær hafa á fólk þegar þær springa. Síðasta miðvikudag var sagt frá því í kvöldfréttum á ríkissjónvarpinu að Bandaríkjamenn væru búnir að framleiða nýja sprengju sem væri tæp tíu tonn að þyngd og þeir kalla „Móður allra sprengna“. Sýndar voru myndir af Bandaríkjamönnum sem lýstu hávaðanum sem hefði komið frá tilraunasprengingum og sérfræðingur lýsti góðum árangri af svipuðum, en minni sprengjum, sem notaðar höfðu verið í Persaflóastríðinu. Hann sagði að með sprengjunum hefði verið dreift flugritum þar sem sagt var að á morgun kæmu þeir til baka með fleiri svona sprengjur. Sérfræðingurinn hreykti sér svo af því að við þessar aðstæður væri fólk fljótt að gefast upp.
Við getum reynt að ímynda okkur við hvaða aðstæður fólkið sem svona sprengjum er látið rigna yfir gefst upp. Og velt því fyrir okkur hvort við fáum jafn greinargóðar lýsingar af gangi mála eftir sprenginguna og við fáum nú, áður en sprengjurnar eru látnar falla.

Núna þegar allt útlit er fyrir það að Bandaríkin munu hefja stríð gegn Írak verðum við að vera á miklu varðbergi gagnvart því sem sagt verður í fréttum. Hvorki þeir sem teljast eiga sérfræðingar á sviði hermála né þeir stjórnmálamenn sem hlyntir eru stríðsaðgerðum munu segja okkur frá því sem raunverulega gerist. En með því að muna eftir því að í rauninni séum við aðeins að hlusta á hryllingssögur sem klæddar hafa verið í spariföt getum við kannski fengið einhverja hugmynd um það sem raunverulega er að gerast.