Guðrún Elsa Bragadóttir er fimmti fyrirlesari fyrirlestraraðarinnar Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi sem er haldin í samstarfi RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum og Jafnréttisskólans (GRÓ-GEST) á vormisseri 2022. Fyrirlestur Guðrúnar Elsu fjallar um hinsegin kvenleika í kvikmyndum Kristínar Jóhannesdóttur. Fyrirlesturinn er á ensku, verður haldinn kl. 12.00 þann 17. mars í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og sýndur í beinu streymi.

Allar götur síðan Laura Mulvey kollvarpaði viðteknum hugmyndum á sviði kvikmyndakenninga árið 1975 með grein sinni „Visual Pleasure and Narrative Cinema“ hefur reynst flóknara að njóta sjónrænnar framsetningar á konum á hvíta tjaldinu – og fyrir marga hefur slík nautn umbreyst í tvíbendna iðju. Áhorfendur eru alltof meðvitaðir um hið „karllæga sjónmál“ sem gegnumsýrir ríkjandi ímyndir af kvenleika en virðist um leið óumflýjanlegt. Hið karllæga sjónmál er stjórntæki feðraveldisins og því virkni þess í grunninn árásargjörn. Hlutverk þess er að stjórna kvenleikanum; að bægja frá óþægilegum og óaðlaðandi hliðum hins kvenlega, þeim sem skilgreindar eru innan samfélagsgerðarinnar sem ógnandi. Í þessum fyrirlestri verður sjónum beint að kvenleika og árásargirni og vandamálunum sem fylgja því að gefa kunnuglega (en oft óþægilega) nautn karllæga sjónmálsins upp á bátinn áður en (óviss) nautnin sem felst í eyðileggingu þess er umföðmuð. Kvikmyndir Kristínar Jóhannesdóttur eru gjöfull vettvangur fyrir rannsókn á slíkum nautnum þar sem myndir hennar innihalda söguheima þar sem stjórntækjum feðraveldisins er veitt næsta lítið rými og „truflandi“ hliðar kvenleikans birtast í óstýrilæti, húmor og kynverund kvenpersóna. Fyrirlesturinn tekur flókið samband okkar við kvenleikann til skoðunar um leið og valkosta við hið karllæga sjónmál er leitað í formi hinsegin framsetningar á kvenleika í kvikmyndum Kristínar. Verður þar athyglinni ekki síst beint að nýjustu kvikmynd leikstjórans, Ölmu (2021), sem tilnefnd var til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs síðastliðið haust.

Guðrún Elsa Bragadóttir kennir kvikmyndafræði við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá State University of New York at Buffalo í ágúst 2021. Doktorsritgerð hennar fjallar um hinsegin kvenleika og sköpunarkraft „kvenlegrar“ árásargirni í kvikmyndum, bókmenntum og dragi.

Fundarstjóri var Eyja Margrét Brynjarsdóttir.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á Youtube-rás Hugvísindasviðs.