Hið jafnrétta Norður og íslenskar kynjaímyndir

Fimmtudaginn 25. febrúar hélt Þorgerður Þorvaldsdóttir, doktorsnemi í kynjafræðum og fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni, fyrirlestur er nefnist „Hið jafnrétta Norður og íslenskar kynjaímyndir“. Fyrirlesturinn var haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.25-13.25.

Ísland trónir nú á toppnum sem „jafnréttasta landi í heimi“ samkvæmt The Global Gender Gap Report frá 2009 og fellur því vel að ímyndinni um „hið jafnrétta Norður“ sem verið hefur fyrirferðamikil í sjálfmynda- og ímyndarsköpun á Norðurlöndum.

Í erindinu var hugað að helstu einkennum hins norræna módels, þar sem ríkjandi táknmynd er ímynd hins „jafnrétta karls“  en neikvæð hliðarverkun er vaxandi aðgreining í „okkur“ og „hina“, þ.e. annars vegar „Norrænir jafnréttissinnar“ og hins vegar „ójafnréttir innflytjendur“.

Í síðari hlutanum var lögð til ný kynjuð tímabilaskipting í íslenskri samtímasögu, byggð á ríkjandi kynjaímyndum. Tímann frá 1970-1999 kallar Þorgerður „hið kvenlæga/femíníska tímabil“, en tímann frá 2000 til október 2008 „tímabil karlmennskunnar“ – eða „testósteróntímann“. Enn á hinsvegar eftir að koma í ljós hvaða kynjuðu merkimiðar hæfa „Nýja Íslandi“ eftir hrun.