Hermenn og hermennska. Hetjur og valkyrjur

7. nóvember flytur Baldur A. Sigurvinsson hádegisfyrirlesturinn Hermenn og hermennska. Hetjur og valkyrjur.

Konur þóttu blíðar og græðandi verur sem áttu hreint ekkert með hermennsku að gera annað en að hjúkra þeim slösuðu. Þessi ímynd af hermennsku er heimur Vesturlanda á síðasta árþúsundi. Svipaðar hugmyndir hafa verið við lýði víðast annars staðar í heiminum. Samt eru undantekningar frá þessu. Í hinum sigursælu og miskunnarlausu herjum Mongóla þjónuðu konur jafnt og karlar og þóttu þær sýna jafn mikið hugrekki og ofbeldishneigð og karlarnir. Fyrir utan fjötra heimilisins sem háði þeim eins og öðrum konum er vildu hasla sér völl utan veggja þess, var lítið sem stóð í vegi fyrir frama þeirra í mongólska hernum. Fornleifarannsóknir í Rússlandi hafa einnig skekkt þessa ímynd en þar finnast vopn og verjur í gröfum kvenna jafnt og karla.

Í dag eru gömlu hugmyndirnar um náttúrulega eiginleika kynjanna að láta undan að mestu leyti í hernum. Samt er enn á brattann að sækja til fulls jafnréttis kynjanna því margir karlmenn og konur einnig tengja hermennsku við karlmennsku og eru karlar því tregir til að hleypa konum að kjötkatlinum. Kaldur veruleikinn hefur hins vegar sýnt fram á tilgangsleysi þessara úreldu hugmynda er stóðu í vegi fyrir herþjónustu kvenna. Þannig þykja t.d. konur henta mun betur til þjónustu sem flugmenn á orrustuþotum sökum líkamsbyggingar sinnar. Enn er þó langt í land áður en fullt jafnræði næst en múrar hafa fallið og fleiri munu falla á næstu árum.

Baldur A. Sigurvinsson lauk nýverið MA prófi í mannfræði við Háskóla Íslands.