gunnellaFöstudaginn 11. apríl flytur Gunnella Þorgeirsdóttur, aðjúnkt í japönskum fræðum við HÍ, fyrirlestur sem ber heitið „Helgimengun og barneignir: Hugmyndafræðin að baki meðgöngusiðum í japönsku samfélagi“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.

Helgimengun (e. ritual pollution) er hugtak sem vísar í mengunareiginleika einstaklinga undir ákveðnum kringumstæðum. Helgimengun er nokkuð þekkt fyrirbrigði í Japan (j. kegare), en finnst einnig í öðrum menningarheimum og vísar til huglægra mengunareiginleika einstaklinga til dæmis í tengslum við dauðsföll, veikindi eða barneignir, og geta þeir þá verið taldir bera ábyrgð á því sem út af ber í samfélaginu. Helgimengun í tengslum við barneignir er nokkuð þekkt fyrirbrigði og svo virðist sem flest samfélög eigi sér einhverskonar afbrigði þessarar hugmyndafræði. Helgimengunin getur birst á mismunandi máta en oft á tíðum er birtingarmynd þess skipulögð einangrun móður og barns eftir fæðingu þar til barnið hefur verið samþykkt inn í samfélagið á ritualískan máta. Í sumum tilvikum er helgimengunin talin hafa mun sterkari áhrif og er þá jafnvel talin bera með sér félagslega smithættu þar sem ýmsir þættir tengdir fæðingunni teljast mengaðir og eru því taldir geta haft margskonar neikvæð áhrif. Í fyrirlestrinum mun Gunnella fjalla um hugmyndafræðina á bak við helgimengun í japönsku samfélagi, tengingu hennar við barneignartímabilið í sögulegu samhengi og loks birtingarmyndir hennar í nútímasamfélagi. Fyrirlesturinn er unninn upp úr rannsókn til doktorsprófs við Sheffield Háskóla á barneignasiðum í Japan.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Öll velkomin!