Bonnie Morris, doktor í kvennasögu og prófessor við George Washingon háskóla í Bandaríkjunum, tróð upp með einleik sinn „The revenge of the women’s studies professor“ eða „Hefnd kynjafræðikennarans“ í Hlaðvarpanum kl. 20:00 þann 22. maí.

Leikritið er skopádeila á hinar fjölmörgu klisjur um kvennafræði og femínisma. Í leikritinu bregður Bonnie Morris upp spaugilegum svipmyndum af ferli sínum, frá því hún tók sinn fyrsta kúrs í kvennasögu 12 ára gömul til dagsins í dag – doktor í kvennasögu og kennari við virtan háskóla í aðstöðu til þess að sannfæra Bill Clinton um réttmæti þess að eyða hálftíma af forsetaferli sínum í að horfa á háskólaleik í kvennakörfubolta í stað þess að ganga út um leið og strákarnir voru búnir að spila. Dr. Bonnie Morris hefur sýnt leikritið víðsvegar um Bandaríkin, í Ísrael, Indlandi og Nýja- Sjálandi. Einleikurinn ásamt umræðum stóð yfir í u.þ.b. eina til eina og hálfa klukkustund. Öllum opið, aðgangur ókeypis.