Þann 6. desember hélt Guðný Björk Eydal, dósent í félagsráðgjöf, fyrirlesturinn Fyrirvinnur og fjölskyldur – svipmyndir af íslenskri fjölskyldustefnu í Hátíðasal Aðalbyggingu.

Fyrirlesturinn fjallaði um hvernig íslensk fjöskyldustefna hefur ávarpað fyrirvinnuhlutverkið frá sögulegu sjónarhorni. Á þriðja áratug síðustu aldar var Ísland ásamt öðrum Norðurlöndum í hópi brautryðjenda þegar sett var mjög framsækin hjúskaparlöggjöf. Löggjöfin skilgreindi eiginkonur og eiginmenn sem jafnréttháa einstaklinga sem hefðu framfærsluskyldur hvort við annað. Skattalöggjöf frá 1927 gerði hins vegar ráð fyrir því að tekjur giftra hjóna væru samskattaðar og ekki var gert ráð fyrir að eiginkonur undirrituðu hið sameiginlega skattframtal. Almannatryggingalöggjöf frá 1946 lagði í megindráttum áherslu á að fyrirvinnuhlutverkið væri í höndum feðra og að mæður sinntu umönnun barna. Smám saman urðu breytingar í átt að þeirri löggjöf sem við búum við í dag, sem gerir ekki uppá milli hjóna heldur veitir þeim sem tveimur einstaklingum eða sambúðaraðilum, sömu réttindi og skyldur. Þá var rætt um nýlegar breytingar á sifjalöggjöfinni í þá átt að tryggja börnum umönnun beggja foreldra, m.a. með sameiginlegri forsjá. Fæðingarorlofslöggjöf hefur einnig verið breytt í þessa veru en í fyrirlestrinum var rætt um hvort annari löggjöf hafi verið breytt til samræmis þannig að foreldrar eigi raunhæfa möguleika á að deila með sér umönnun barna og fyrirvinnuhlutverkinu.