Hádegisfyrirlestur Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum verður haldinn í stofu 301 í Árnagarði kl. 12:05-13:00 fimmtudaginn 2. október. Fyrirlesari er Guðrún H. Eyþórsdóttir mannfræðingur og kallast fyrirlestur hennar Forsendur breytuvals í krabbameinsrannsóknum: Hin kynbundna nálgun í skjóli hlutleysis.

Fyrirlesturinn fjallar í meginatriðum um val á breytum í krabbameinsrannsóknum sem löngum hefur verið umdeilt, eða allt frá því er Hippokrates frá Kos bar fyrst kennsl á meinið og gaf því nafnið krabbamein. Í skjóli hlutleysis hafa vísindamenn gert rannsóknir á krabbameini í von um að finna lækningu. Það er krafa að læknavísindinn eigi að vera hlutlaus og flestir trúa að svo sé. Samt sem áður voru þessi tilteknu vísindi mótuð af pólitík innan fræðanna, og þeim karllægu gildum sem eru og voru ríkjandi í árhundruði. Vísindin virðast hafa orðið að sannleiksframleiðslu sem lýsir sér í breytuvali og niðurstöðum rannsókna. Þessi sannleiksframleiðsla hefur sannfært almenning sem og vísindamenn sjálfa um það að vísindarannsóknir séu laus við áhrif ríkjandi samfélagsgilda og að innan þeirra ríki algert hlutleysi. Þessi trú virðist endurspeglast í rannsóknum á leghálskrabbameini kvenna annars vegar og blöðruhálskirtilskrabbameini karla hins vegar þar sem gefið er í skyn með breytuvali að konur séu ábyrgar fyrir krabbameini sínu (leghálsi) en karlar séu fórnarlömb krabbameins í blöðruhálskirtli.

Guðrún H. Eyþórsdóttir lauk BA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og sama ár hóf hún MA-nám í líffræðilegri beinamannfræði við Columbia University, New York. Áhugi Guðrúnar beindist meira að vísindamannfræði og í febrúar 2002 lauk hún MA-prófi á því sviði.