Fléttur V. #MeToo

Haustið 2017 þvarr langlyndi kvenna gagnvart kynbundinni og kynferðislegri áreitni, ofbeldi og einelti. Þá kom glögglega í ljós að þótt kynbundin og kynferðisleg áreitni sé meðhöndluð í lögum og reglugerðum hafa þær aðgerðir sem hingað til hefur verið beitt gegn slíku háttalagi ekki forðað konum frá því. Konur nýttu samfélagsmiðla til að deila frásögnum sínum undir myllumerkinu #MeToo og úr varð alþjóðleg fjöldahreyfing sem var kröftugt svar við kerfisbundinni mismunun sem kynbundið ofbeldi á þátt í að viðhalda.  

Fimmta hefti ritraðar RIKK, Fléttur V. #MeToo, er tileinkað #MeToo og baráttu kvenna gegn áreitni og ofbeldi. Í greinasafninu nálgast höfundar efnið frá fjölbreytilegu sjónarhorni. #MeToo er sett í sögulegt samhengi innan kvennahreyfingarinnar. Fjallað er um hvernig ótti kvenna við kynferðisofbeldi birtist í íslenskum bókmenntum. Frásagnir kvenna sem störfuðu sem ráðskonur á síðari hluta 20. aldar af kynbundnu ofbeldi eru teknar til skoðunar. Sjónum er beint að því viðhorfi sem konur mæta í heilbrigðiskerfinu og fjallað um áhrif kynferðisofbeldis á heilsu þeirra. Jafnframt er vikið að hugmyndum ungra karlmanna um kynheilbrigði og #MeToo. Rýnt er í sálrænar afleiðingar margþættrar mismununar í garð fatlaðra kvenna og það kerfislæga misrétti sem #MeToo-sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi afhjúpa. Spurt er hvort #MeToo-hreyfingin sé þáttur í breyttum mannskilningi sem bjóði hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar byrginn og rýnt er í mótstöðuna gegn #MeToo. 

Ritstjórar eru Elín Björk Jóhannsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Auk formála eru 11 greinar í heftinu og eru höfundar þeirra Irma Erlingsdóttir, Soffía Auður Birgisdóttir, Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, Guðbjörg Lilja Hjartardóttir, Dalrún J. Eygerðardóttir, Guðrún Steinþórsdóttir, Sigrún Sigurðardóttir, Sigríður Halldórsdóttir, Lóa Guðrún Gísladóttir, Ragný Þóra Guðjohnsen, Sóley S. Bender, Freyja Haraldsdóttir, Nanna Hlín Halldórsdóttir, Eyja Margrét Halldórsdóttir og Nichole Leigh Mosty. Bókin hlaut styrk úr Jafnréttissjóði Íslands.

 

Greinar og ágrip þeirra má sjá hér að neðan:

 

Irma Erlingsdóttir: Inngangur. Uppgjör á umbyltingartímum

Í greininni er fjallað um þau straumhvörf sem #MeToo-hreyfingin hefur valdið. Þau felast einkum í víðtækari þátttöku og samstöðu í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og hatursorðræðu en áður heldur hefur þekkst, alþjóðlegri viðurkenningu á útbreiðslu vandans og pólitískri viðhorfsbreytingu. #MeToo-hreyfingin ræðst þannig að rótum kynbundins valdamunar – hins gagnkynhneigða forræðis – sem allt táknkerfið, atferli og gildismat miðast við. Höfundur staðsetur #MeToohreyfinguna í sögu réttindabaráttu kvenna. Í fyrsta lagi er sjónum beint að tilurð hennar, ávinningi og takmörkunum. Í öðru lagi er vikið að nýlegum líkamsbyltingum og baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni á Íslandi. Loks er efni tíu greina sem birtast í Fléttum V. #MeToo sett í fræðilegt samhengi og lagt út frá þeim um stöðu baráttunnar gegn því samfélagsmeini sem hér um ræðir.

Lykilorð: #MeToo, kerfislægt misrétti, uppgjör, bylting, uppbyggileg réttvísi

 

Soffía Auður Birgisdóttir: Þessi tvífætta villibráð

Í nýlegum sögum og ljóðum eftir íslenskar konur er lýst ótta kvenna við að vera einar á göngu utanhúss að kvöldlagi. Viðfangsefnið er ekki nýtt og má í því sambandi nefna þekktan fyrirlestur Svövu Jakobsdóttur, „Reynsla og raunveruleiki“ frá árinu 1979. Þar veltir Svava fyrir sér ýmsum hugsanlegum skýringum á slíkum ótta, sem virðist vera kynbundinn. Þegar Svava skrifar grein sína er hugtakið „nauðgunarmenning“ ekki komið til sögunnar en hér er fjallað um merkingu þess í tengslum við þá bókmenntatexta sem teknir eru til umræðu. Þá er einnig brugðið ljósi á þetta þema í goðsögum og ævintýrum. Rýnt er sérstaklega í myndmál óttans og þær valdaafstöður sem textarnir draga fram. Textadæmin eru greind með hliðsjón af femínískum kenningum um kynbundinn ótta, ástæður hans og afleiðingar.

Lykilorð: ótti kvenna, kynferðisofbeldi, nauðgunarmenning

 

Þorgerður H. Þorvaldsdóttir og Guðbjörg Lilja Hjartardóttir: Líkamsbyltingar og #MeToo

#MeToo-byltingin er hér sett í sögulegt samhengi. Til umfjöllunar eru þrjú tímabil átaka og umróts í sögu íslenskrar kvenréttindabaráttu þar sem kvenlíkaminn er í forgrunni. Þær líkamsbyltingar sem horft er til eru: innreið drengjakollsins á þriðja áratugnum, en hann varð táknmynd aukins sjálfræðis kvenna, sá fókus sem settur var á kvenlíkamann í gegnum harðvítug átök um fóstureyðingar og gagnrýni á þröngt skilgreind fegurðarviðmið á áttunda áratugnum og einnig er sjónum beint að keðju líkamsbyltinga á síðustu árum sem snúist hafa um kynfrelsi kvenna og lausn undan áþján kynferðisofbeldis. Nýjasti hlekkurinn er #MeToo-byltingin. Í lokahlutanum er því rýnt í nokkrar af þeim rúmlega 800 frásögnum kvenna sem birst hafa undir formerkjum #MeToo og sérstaklega fjallað um átta þemu eða þrástef sem koma fram þvert á hópa og stéttir.

Lykilorð: líkamsbyltingar, #MeToo, kynfrelsi kvenna, kvenréttindabarátta, kvennasaga

 

Dalrún J. Eygerðardóttir: #MeToo mælt af munni fram: kynbundið ofbeldi gegn ráðskonum í sveit á síðari hluta 20. aldar

Í greininni eru kynferðisleg áreitni og ofbeldi gagnvart ráðskonum á Íslandi á síðari hluta 20. aldar skoðuð út frá 32 viðtölum. Staða ráðskonu á sveitaheimili einkennist af því að hún var vinnukraftur sem bjó á vinnustaðnum (e. live-in domestic worker). Þar sem vinnustaðurinn afmarkaðist af veggjum heimilisins sem hið opinbera hafði lítinn sem engan aðgang að, var ekki gerlegt að hafa formlegt eftirlit með störfum þeirra. Þessi staða auðveldaði vinnuveitendum að ganga á rétt þeirra. Ekki bætti úr skák að stór hluti ráðskvenna hafði ekkert stuðningsnet og voru þær því berskjaldaðri en ella fyrir ofbeldi og öðru misrétti. Greinin gefur einnig mikilvæga innsýn í afstöðu fyrrum ráðskvenna til #MeToobyltingarinnar. Vitnisburðirnir eru settir í fræðilegt samhengi munnlegrar sögu (e. oral history) og skoðaðir út frá frásögnum og skrásetningum á #MeToo-sögum.

Lykilorð: ráðskonur í sveit, kynbundið ofbeldi á vinnustað, munnleg saga, #MeToo

 

Guðrún Steinþórsdóttir: Kona fer til læknis

Í greininni er fjallað um frásagnir af erfiðum samskiptum kvenna við heilbrigðiskerfið sem hafa reglulega komið fram jafnt á netinu, í blaðaviðtölum og í greinum en einnig í skáldsögum og ævisögum. Algengt þema í slíkum sögum er að konurnar sem segja þær mæti litlum skilningi, læknar hlusti ekki á þær, segi þeim að hreyfa sig meira og þar með grenna sig, greini veikindi þeirra skakkt og/eða finnist ekki þörf á að senda þær í frekari rannsóknir. Í greininni er rætt um sögur af þessu tagi, eðli þeirra og afleiðingar. Frásagnirnar verða settar í sögulegt og menningarlegt samhengi í tilraun til að skýra hver staðan er bæði í heilbrigðiskerfinu og á rannsóknarsviði læknisfræðinnar og hvernig þyrfti að bæta hana. Ýmis mikilvæg hugtök tengd samskiptum lækna og sjúklinga eru rædd, þar á meðal sársauki, þjáning og samlíðan. Að lokum verður bent á hvaða verkfæri bókmenntafræðinnar geta gagnast í að betrumbæta samskipti lækna og sjúklinga og í því skyni kynnt til sögunnar læknahugvísindi. Þótt sögurnar sem fjallað er um séu ólíkar eiga þær það sameiginlegt að varpa ljósi á misrétti innan heilbrigðiskerfisins um leið og þær miðla ósk um að hlustað sé á konur sem þjást, að samfélagið viðurkenni vandann og hafni núverandi ástandi.

Lykilorð: læknahugvísindi, frásagnarlæknisfræði, samlíðan, sársauki, frásagnir, samskipti lækna og kvensjúklinga

 

Sigrún Sigurðardóttir og Sigríður Halldórsdóttir: Þrálát þjáning og leiðin til baka í ljósi #MeToo: afleiðingar kynferðisofbeldis fyrir konur og leitin að innri lækningu

Kynferðisofbeldi veldur konum þrálátri þjáningu samkvæmt þeirri kenningarþróun sem framkvæmd er í greininni með því að afla þekkingar úr fjölmörgum rannsóknum um afleiðingar slíks ofbeldis á konur. Í æsku og á unglingsárum koma afleiðingar ofbeldisins fram í tilfinningalegri þjáningu kvennanna, innri kvölum og örvæntingu, ásamt því að vera á stöðugu varðbergi, búast við hinu versta og vera berskjaldaðar. Tilfinningar um óbærilega leynd, ógn og niðurlægingu eru viðvarandi, ásamt aftengingu sálar og líkama. Þá eru ótti, óöryggi, brotin sjálfsmynd, sjálfsásökun og sektarkennd ríkjandi. Einnig það að telja sig neydda til að taka fulla ábyrgð á glæpnum. Mörg heilsufarsvandamál eru viðvarandi eins og vöðvaverkir, mígreni, höfuðverkir, endurteknir kviðverkir og móðurlífsverkir. Kvíði, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir eru algengar afleiðingar. Á fullorðinsárum eru afleiðingar einnig margháttaðar, þar með taldar sýkingar í leggöngum og móðurlífi, endurteknar þvagfærasýkingar, útbreiddur og langvarandi sársauki, svefnvandamál, langvarandi bakvandamál, vefjagigt, átraskanir, félagskvíði, alvarlegt þunglyndi og langvarandi þreyta. Lokaniðurstaða greinarinnar er að kynferðisofbeldi hafi þessar miklu langtímaafleiðingar vegna þess að áföll eins og kynferðisofbeldi veikja ónæmiskerfið. Alvarleiki afleiðinganna sýnir að innan hvers samfélags ætti að vera forgangsverkefni að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi af öllu tagi.

Lykilorð: kynferðisofbeldi, brotaþolar, afleiðingar kynferðisofbeldis, heilbrigði og velferð kvenna, kenningarsmíði, kenningarsamþætting

 

Lóa Guðrún Gísladóttir, Ragný Þóra Guðjohnsen og Sóley S. Bender: „Stelpan er einhvern veginn hlutur, hún á að … gegna okkur“ : sýn ungra karlmanna á kynheilbrigði og #MeToo-byltinguna

#MeToo-byltingin varpaði ljósi á ýmsa þætti sem snúa að framkomu karla í garð kvenna. Greinin fjallar um niðurstöður eigindlegrar rannsóknar á viðhorfum ungra karlmanna til kynheilbrigðis og skilaboða #MeToo-byltingarinnar. Í rannsókninni voru tekin viðtöl við sex karlmenn á aldrinum 18–21 árs sem valdir voru með tilgangsúrtaki. Við þemagreiningu gagnanna komu fram þrjú þemu: Ég sem kynvera, Í takt við kynlífsfélaga og Hið stærra samhengi. Niðurstöður benda til þess að jafningjaþrýstingur á unglingsárum gegni stóru hlutverki í kynhegðun ungra karlmanna. Þátttakendur upplifa að gerð sé krafa til þeirra um „karlmennsku“ í kynlífi en benda á að engin handbók sé til um heilbrigð viðmið um kynhegðun og hvernig skuli haga umræðu um kynheilbrigði. Þeir eru sammála um að ábyrgð, virðing og samræða séu lykilþættir góðs kynferðislegs sambands sem jafnframt þurfi að byggjast á jafningjagrundvelli. Þá kom fram að þeir telja skilaboð #MeToo-byltingarinnar mikilvæg fyrir samfélagið. Á sama tíma viðurkenna þeir að byltingin og skilaboð hennar séu töluð niður í strákahópum og að þeir hafi sjálfir tekið þátt í að ræða um stelpur á niðrandi hátt innan vinahópsins. Þeir töldu slíkt tal eiga rætur í hugmyndum ungra karlmanna um kynhegðun og kynheilbrigði, sem gjarnan kæmi úr klámefni þar sem stelpur væru kynferðisleg viðföng. Samfélagsmiðlar auðvelda að þeirra sögn aðgang bæði að klámi og kynlífi. Kall eftir betri kynfræðslu kom því sterkt fram hjá ungu mönnunum og ljóst er að í henni þarf að vinna með þætti eins og karlmennsku, jafningjaþrýsting, færni í tjáskipum og skilaboð #MeToo-byltingarinnar. Á þann hátt mætti hlúa að kynheilbrigði sem er mikilvægur þáttur í velferð borgaranna og lýðheilsu.

Lykilorð: ungir karlmenn, kynheilbrigði, karlmennska, #MeToo, kynfræðsla

 

Freyja Haraldsdóttir: „Samfélagið segir manni bara að halda kjafti sem þæg fötluð kona“ : sálrænar afleiðingar af margþættri mismunun

Fatlaðar konur um allan heim verða fyrir margþættri mismunun sem kemur í veg fyrir að þær fái jöfn tækifæri og dregur úr líkamlegri og andlegri vellíðan. Í þessari grein er fjallað um reynslu fatlaðra kvenna á Íslandi af margþættri mismunun með sérstakri áherslu á kyngervi og fötlun. Sálrænar afleiðingar þess að verða fyrir margs konar beinu og óbeinu ofbeldi eru skoðaðar út frá niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar. Einnig er litið til þess hvernig konurnar andæfðu slíku ofbeldi og hvaða hugmyndir þær hafa um mögulegar samfélagsumbætur. Niðurstöður gefa til kynna að þátttakendur upplifðu margþætta mismunun í ólíkum rýmum sem oft var bæði dulin og meiðandi. Sálrænu afleiðingarnar voru flóknar og mótsagnakenndar og birtust í þreytu, sorg, kvíða og ótta, reiði, valdaleysi, að vera öðrum háðar, hlutgervingu og afmennskun. Konurnar í rannsókninni stunduðu andóf og stuðluðu að betri líðan með ólíkum hætti, meðal annars með því að taka sér vald til að skilgreina sig sjálfar, leita til aðstandenda sem viðurkenna líðan þeirra og að mynda samstöðu með öðrum fötluðum konum. Þær töldu að breytingar á jaðarsettri stöðu þeirra fælust í að uppræta kúgandi valdakerfi og skaðlega menningu sem ýtir undir fötlunar- og kvenfyrirlitningu og koma í veg fyrir að fatlaðar konur á Íslandi geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu. Í greininni er reynslu höfundar, sem er fötluð kona, af femínísku fötlunarbaráttustarfi einnig gefið rými. Jafnframt er varpað ljósi á helsta lærdóm sem draga má af rannsókninni með tilliti til mikilvægra samfélagsumbóta og byltinga, á borð við #MeToo, til þess að sporna við margþættri mismunun og stuðla að þátttöku fatlaðra kvenna í femínísku baráttustarfi.

Lykilorð: fötlun, kyngervi, ofbeldi, innbyrðing kúgunar, samtvinnun, femínísk fötlunarfræði

 

Nanna Hlín Halldórsdóttir: Breyttur mannskilningur á #MeToo-tímum : berskjöldun sem svar við nýfrjálshyggju

Í greininni er fjallað um möguleika #MeToo til þess að umbylta ráðandi mannskilningi út frá fræðiramma femínískrar heimspeki. Fjármálakreppan 2008 setti spurningarmerki við hinn hefðbundna mannskilning nýfrjálshyggjunnar en þó er enn óljóst hvort nýr mannskilningur hafi tekið við af þeim gamla. Þar sem síðastliðinn áratugur hefur einkennst af aðhaldsaðgerðum stjórnvalda í vestrænum samfélögum má færa rök fyrir því að enn mikilvægara sé nú en áður að koma fram sem hinn ósæranlegi eignvæddi einstaklingur nýfrjálshyggjunnar til þess að tryggja sér vinnu. Raddir andófs og mótmæla hafa verið áberandi og talað gegn því að taka á sig byrðar fjármálakreppunnar í formi skulda, óöruggrar vinnu og stöðugrar samkeppni við annað fólk. Höfundur færir rök fyrir því að til þess að umbylta þessu samfélagskerfi sé nýr mannskilningur, sem byggist á manneskjunni sem berskjaldaðri tengslaveru, nauðsynlegur. #MeToo og aðrar femínískar byltingar búa yfir miklum möguleikum til slíkrar umbyltingar. Í þessum byltingum hafa konur náð saman, komið berskjaldaðar fram og skapað rými fyrir aðra til að gera hið sama. En til þess að mannskilningur byggður á berskjöldun nái forræði í samfélaginu þarf að taka kapítalískt vinnukerfi til róttækrar skoðunar, þar sem kúgun og ofbeldi mun viðhaldast ef vinna snýst um samkeppni um lífsviðurværi eins og innan kapítalisma. Færð eru rök fyrir því að #MeToo-byltingin leggi grundvöll og veiti kraft til slíkrar skoðunar.

Lykilorð: berskjöldun, nýfrjálshyggja, mannskilningur, femínískar byltingar, ósæranleiki

 

Eyja Margrét Brynjarsdóttir: Bakslagsviðbrögð við #MeToo: hannúð, gaslýsing og þekkingarlegt ranglæti

Fljótlega eftir að #MeToo-hreyfingin fór af stað tók að bera á andstöðu við hana og bakslagi. Raddir heyrðust sem spurðu hvort ekki væri komið nóg af þessu #MeToo, hvort hreyfingin gengi of langt og margir lýstu áhyggjum af afdrifum manna sem yrðu fyrir ásökunum og því að það „mætti bara ekkert lengur“. Núna, fáeinum árum síðar, virðast margir ganga út frá því að #MeToo hafi runnið sitt skeið og samfélagið sé búið að gera upp öll þau mál sem þar hafi komið fram. Karlar sem voru afhjúpaðir snúa aftur eins og ekkert hafi í skorist og þeim til varnar er spurt: „Hvað átti maðurinn eiginlega að þurfa að bíða lengi?“ Í greininni er rýnt í þessa þróun með aðferðum femínískrar heimspeki og lögð áhersla á valdatengsl og hagsmuni þeirra hópa sem eiga í hlut. Athyglinni er beint að því hvernig það þjónar ákveðnum hagsmunum að þagga niður umræðuna sem fór af stað með #MeToo, svo ekki sé minnst á kröfurnar um aðgerðir. Því er haldið fram að bakslagsviðbrögð við #MeToo séu fyrirsjáanleg í ljósi þeirrar afgerandi samfélagsgagnrýni sem átakið felur í sér. Farið er yfir nokkrar gerðir af bakslagsviðbrögðum og tillögur settar fram um möguleg gagnviðbrögð.

Lykilorð: #MeToo, bakslag, þöggun, hannúð, afvegaleiðing, rökstuðningur

 

Nichole Leigh Mosty: Mikilvægi samstöðunnar: #MeToo-byltingin og konur af erlendum uppruna

Þegar #MeToo yfirtók samfélagsmiðla hér á landi og konur úr hverri starfsstéttinni á fætur annarri stigu fram var hvergi að finna raddir kvenna af erlendum uppruna í hreyfingunni. #MeToo-sögur kvenna af erlendum uppruna komu fram nokkru síðar og urðu hluti af byltingunni hérlendis en þessum konum fannst þær samt sem áður eiga takmarkaða hlutdeild í hreyfingunni og stóðu að miklu leyti einar að því að koma sögum sínum á framfæri. Frásagnirnar segja frá fordómum, mismunun, markvissu niðurbroti, vanrækslu, útilokun og misnotkun. Margar kvennanna höfðu verið yfirgefnar og einangraðar af þeim sem þær báru mest traust til. Ferlið sem konur af erlendum uppruna fóru í gegnum við að sameinast á bak við þær 34 frásagnir sem voru birtar opnaði augu margra fyrir því að misrétti gagnvart hópnum er hér kerfisbundið. Í greininni er það ranglæti sem birtist í #MeToo-sögum kvenna af erlendum uppruna sett í samhengi við stöðu þessa jaðarsetta minnihlutahóps á vinnumarkaði sem og gagnvart þeim stofnunum eða kerfum sem eiga að þjóna honum. Sögurnar staðfestu að íslenskt samfélag hafði um langa hríð veigrað sér við að horfast í augu við ýmislegt misjafnt sem konur af erlendum uppruna hafa reynt.

Lykilorð: #MeToo-byltingin, konur af erlendum uppruna, Ísland, kynferðislegt ofbeldi, heimilisofbeldi