Flettur_III_v6_FinalFöstudaginn 21. febrúar verður haldið útgáfuboð í tilefni af útgáfu þriðja greinasafnsins í ritröð RIKK, Fléttur III, í Öskju stofu 132, kl. 16:00-18:00.

Viðfangsefni bókarinnar eru birtingarmyndir misréttis í samfélagi og menningu og áhrif þess á aðstæður karla og kvenna. Má þar nefna átök femínista af ólíkum skólum á Íslandi, misnotkun valds og andóf í kristinni trúarhefð og stöðu kvenna í bókmenntum og kvikmyndum. Í bókinni er sjónum jafnframt beint að samtvinnun ólíkra þátta mismununar, skörun fötlunar og kyngervis, og íslenskri friðargæslu í ljósi femínískra öryggisfræða. Einnig er rætt um þær afleiðingar sem ofríki karllægrar hugmyndafræði hafði í fjármálakreppunni árið 2008 og í umræðunni um loftslagsbreytingar.

 

Dagskrá:
16:00-16:05 Fundarstjóri Irma Erlingsdóttir, dósent í frönskum samtímabókmenntum og forstöðumaður RIKK: Opnun
16:05-16:15 Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði og stjórnarformaður RIKK: Fléttur III – Jafnrétti, menning, samfélag
16:15-16:30 Cynthia Enloe, rannsóknaprófessor við Clark háskóla: What’s Masculinity Got to Do with It? Making Feminist Sense of Bankers Across Borders
16:30-16:45 Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum: Í frásagnarspeglasalnum

Boðið verður upp á léttar veitingar.

Öll velkomin!

 

Nánar um Fléttur III:

Fléttur III – Jafnrétti, menning, samfélag er þriðja greinasafnið í Fléttum ritröð RIKK, Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, en þetta er 20 ára afmælisrit stofnunarinnar. Fléttum er ætlað að kynna niðurstöður jafnréttisrannsókna og koma á framfæri fræðilegum greinum um kvenna- og kynjafræði, femínisma og jafnréttismál í víðum skilningi, og spegla þá miklu breidd sem er í jafnréttisfræðum bæði hér heima og erlendis. Í þessu þriðja greinasafni Flétta má finna 12 greinar eftir íslenska og erlenda höfunda og lúta sum umfjöllunarefnin að séríslenskum kringumstæðum en önnur hafa alþjóðlega skírskotun.

Höfundar greina: Alda Björk Valdimarsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir, Benedikt Hjartarson, Björn Ægir Norðfjörð, Björn Þór Vilhjálmsson, Cynthia Enloe, Dagný Kristjánsdóttir og Katrín María Víðisdóttir, Daisy L. Neijmann, Joni Seager, Kristín Björnsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir.

Ritstjórar: Annadís G. Rúdólfsdóttir, Guðni Elísson, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Irma Erlingsdóttir.

Útgefendur: RIKK og Háskólaútgáfan.

Menningarsjóður Hlaðvarpans, Reykjavíkurborg, Rannsóknasjóður Hugvísindastofnunar og EDDA – öndvegissetur styrktu útgáfuna.