Feminismar og ný erfðavísindi

Þriðjudaginn 11. maí flutti vísindafélagsfræðingurinn dr. Hilary Rose opinberan fyrirlestur sem ber yfirskriftina „Feminismar og ný erfðavísindi“. Dr. Hilary Rose er prófessor emerítus við háskólann í Bradford í Englandi. Hún hefur verið gistiprófessor við fjölda háskóla bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og er nú gistiprófessor í félagsfræði við City háskóla í London. Hún hefur einkum stundað rannsóknir á sviði vísindafélagsfræði og kvennafræði og á síðustu árum hefur hún sérstaklega rannsakað erfðavísindi í ljósi þessara fræðigreina.

Lýsing

Erfðafræði og mannkynbætur/erfðabætur/arfbætur (eugenics) eiga sér rætur í 19. öldinni og hafa verið miðlægar í vísindum, menningu og samfélagspólitík 20. aldar. Frá seinna stríði hafa mannkynbætur verið litnar hornauga vegna tengsla við nasismann en nú er breyting að verða þar á. Nýjar útgáfur erfðafræði og mannkynbóta hafa séð dagsins ljós. Mannkynbætur hafa verið grundvöllur lýðræðislegra velferðaríkja nútímans þar sem móðurhlutverkið og eðlilegt líferni er skilgreint af ríki og læknavísindum. Nú má segja að eins konar neytenda- eða markaðs- mannkynbótastefna hafi leyst ríkisforsjá af hólmi og feminisk gagnrýni hefur dregið í efa skilgreiningar eða mótun læknavísinda á hugtökum eins og „eðlilegur“, „upplýst samþykki“ og „val“. Nýja þróunarsálfræðin hefur blásið nýju lífi í erfðafræðilega nauðhyggju, ekki síst í sambandi við kynferði. Hvað sem okkur finnst um sérhönnuð börn og ærina Dollý er víst að fjármagnseigendur veðja á hina nýju erfðafræði sem er hnattrænt fyrirbæri. Hvaða möguleikar á andófi felast í feminismum; með hvaða hætti er hægt að milda eða koma reglum yfir þessar ört vaxandi efnislegu og hugmyndafræðilegu valdaformgerðir?