Farsæl öldrun, hver er galdurinn?

Ingrid Kuhlman

Ingrid Kuhlman er fyrsti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2019 og nefnist fyrirlestur hennar „Farsæl öldrun, hver er galdurinn?“ Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 5. september, kl. 12:00-13:00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Í erindinu byggir Ingrid á lokaverkefni sínu í hagnýtri jákvæðri sálfræði frá Buckinghamshire New University. Verkefnið var eigindleg rannsókn á skynjun og skilningi eldri borgara á vellíðan. Þátttakendur voru sjö konur á aldrinum 70-79 ára. Í rannsókninni komu í ljós sjö þemu sem sýna hvernig þátttakendur hafa skapað sér hamingjuríka tilveru og mun Ingrid fjalla um þessar niðurstöður í erindinu. Þær gefa okkur innsýn í það hvernig eigi að lifa hamingjuríku og ánægjulegu lífi og hvað eldri borgarar gera dags daglega til að auka vellíðan sína.

Ingrid er með MSc gráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði. Hún starfar sem þjálfari og ráðgjafi og jafnframt framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar. Meðal rannsóknarefna hennar eru jákvæð sálfræði, sjálfstraust, samskipti, tímastjórnun, markmiðasetning, seigla, hamingja og streita.

Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku og er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Viðburðurinn á Facebook!

***

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2019 er tileinkuð öldrun. Í fyrirlestraröðinni munu fyrirlesarar úr mismunandi greinum fjalla um viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum.

Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.