Þann 11. mars flutti Ólöf Ásta Ólafsdóttir, lektor, erindið Fæðingin, kraftmikið og skapandi ferli: Hugmyndafræði ljósmæðra.

Árið 1995 fluttist nám ljósmæðra inn í háskóla á Íslandi og sama hreyfing gerist víða um heim. Ljósmóðurstarfið er eitt hið elsta í heiminum og á rætur sínar að rekja til sameiginlegrar reynslu mæðra og feðra af barneignum. Því hefur verið haldið fram að saga ljósmæðra og hvernig staða þeirra hefur verið í samfélaginu megi líkja við stöðu kvenna almennt. Framan af var fæðingarhjálp í höndum kvenna og söfnuðu þær þekkingu og reynslu um meðgöngu, fæðingarhjálp og umönnun sængurkvenna og barna. Síðar, ekki síst fyrir áhrif læknavísindanna (medicalization), glötuðu konur (ljósmæður) þessari þekkingu og ákveðinni stöðu í samfélaginu. Litið var á fæðinguna sem sjúkdóm en ekki sem náttúrulegan atburð, kraftmikið og skapandi ferli. Í dag er verið er að endurskoða hugmyndagrunn ljósmóðurfræðinnar og greina hvaða áhrif læknavísindin hafa haft á heilbrigði kvenna og barneignir. Í rabbinu var fjallað um þessa þessa þætti og þróuninni lýst með dæmum af upplifun mæðra og feðra. Hugtökin samfelld umönnun (continuity of carer), upplýst val (informed choice), styrking (empowerment) og stjórn (control) voru í þessu samhengi rædd.