Davíð G. Kristinsson er fyrsti fyrirlesari hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2023 en röðin er tileinkuð afnýlenduvæðingu líkt og á vormisseri. Fyrirlestur Davíðs nefnist „„Enough of That Post-Colonial Piece of Shit“. Endurskoðun fortíðarhátta í eftirlendubókmenntum Norður-Atlantshafsins“ og verður haldinn kl. 12.00 fimmtudaginn 21. september í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Sú endurskoðun á gildum sem hefur átt sér stað undanfarin ár er ekki sögulegt einsdæmi. Fyrir þau sem muna tímana tvenna geta þær leiðréttingar sem gerðar hafa verið á mörgum sviðum samfélagsins í seinni tíð engu að síður virst verulegar. Afturhaldsseggir malda í móinn yfir því að verið sé að „uppfæra“ viðmiðin og finnst of langt gengið. Þessir „miðaldra hvítu karlmenn“ virðast vera í nokkurs konar einokunarstöðu þegar kemur að því að setja spurningarmerki við slíkar endurbætur. Til að vinna gegn þessum einkarétti á því að véfengja framfarir, mætti spyrja með bernskari augum heimspekinnar hvort í ókominni framtíð verði hægt að uppfæra þessi viðmið endalaust með því að fara sífellt dýpra í „hreingerningunni“ – og spyrja sig um leið hvort í þessari mjög svo þörfu tiltekt séu einhverjar uppfærslur sem fari út af sporinu. Í fyrirlestrinum er ætlunin að velta vöngum yfir þessu, fyrst með hliðsjón af dönskum rithöfundum sem segja má að hafi í auknum mæli „leiðrétt“ fyrri skrif landa sinna um nýlenduna Grænland og síðan út frá skrifum heimamanna á borð við Niviaq Korneliussen, höfund Homo Sapína, sem líta mætti á sem lokahnykk slíkra lagfæringa.

Davíð G. Kristinsson er með meistaragráðu í heimspeki, félagsfræði og stjórnmálafræði frá Freie Universität í Berlín og doktorspróf í heimspeki frá sama háskóla. Hann hefur kennt þar málstofur í heimspeki og auk þess menningarfræði og íslenskar bókmenntir við norrænudeild Humboldt-háskóla í Berlín. Hann er aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.