Sólveig Anna Bóasdóttir

Sólveig Anna Bóasdóttir

Föstudaginn 13. mars flytur Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands fyrirlesturinn „„En þetta var venjan, konurnar gáfu …“ Sólveig Stefánsdóttir (1891–1967) Vogum í Mývatnssveit“ í stofu 102 á Háskólatorgi kl. 12-13. Athugið að gengið er inn um aðaldyr Háskólatorgs og svo er gengið niður hringstiga vinstra megin.

Móðuramma Sólveigar Önnu, Sólveig Stefánsdóttir (1891-1967) er í forgrunni fyrirlestrar hennar en einnig bregður þar fyrir fleiri ömmum, s.s. langömmu hennar Ólöfu Valgerði Jónasdóttur (1848-1908) og langalangömmu, Guðfinnu Sigurðardóttur (1842-1922). Sólveig, var ættuð úr Mývatnssveit en bjó í Reykjadal í Suður Þingeyjarsýslu þar til hún giftist í Voga í Mývatnssveit árið 1912. Nítján ára gömul dvaldi hún einn vetur í Reykjavík, hjá föðurbróður sínum Jóni Jónssyni alþingismanni, sem kenndur er við Múla. Þennan vetur sótti hún söngskóla hjá Sigfúsi Einarssyni auk þess að hjálpa til á heimili frænda síns. Hún hefur skrifað nokkuð um þennan tíma og minnist þess m.a. þegar Bríet Bjarnhéðinsdóttir heimsótti Jón til þess að leita stuðnings í kvenréttindamálinu, við dræmar undirtektir, vægast sagt!

Í fyrirlestrinum beinir Sólveig Anna sjónum að ömmu sinni sem trúaðri konu og sýnir hvernig trúin mótaði líf hennar og störf. Í því sambandi fjallar hún um starf kvenfélagsins Hrings í Mývatnssveit sem stofnað var árið 1901, að frumkvæði langömmu Sólveigar Önnu, Ólafar Valgerðar í Vogum. Hringur var dæmigert líknarfélag sem vann að velferðarmálum á tímum þegar hugtakið velferð var varla til umræðu. Sólveig var forstöðukona Hrings um tveggja áratuga skeið. Starf Hringskvenna fór ekki hátt, þær hittumst einu sinni til tvisvar á ári heima hjá hver annarri, söfnuðu peningum til þeirra sem höllustum fæti stóðu hverju sinni og færðu þeim að gjöf. Gjafmildin, líknin og trúin eru þannig meginstef umfjöllunar Sólveigar Önnu.

Kvenfélagið Hringurinn Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ sem RIKK heldur í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Viðburðurinn er öllum opinn og er á Facebook.