Kristín ÁstgeirsdóttirFöstudaginn 6. febrúar flytur Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur og framkvæmdastýra Jafnréttisstofu fyrirlesturinn „En amma hafði á öldunni gát og aflann úr fjörunni dró“, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12-13.

Í fyrirlestrinum mun Kristín fjalla annars vegar um langömmu sína Kristínu Magnúsdóttur, 1859-1938, sem lengst af bjó í Vestmannaeyjum og hins vegar móðurömmu sína Guðrúnu Guðmundsdóttur, 1895-1973, sem var frá Akranesi en bjó lengst af í Mosfellssveitinni og Reykjavík en einnig í Bandaríkjunum. Ævi þessara kvenna var ólík en báðar voru alþýðukonur sem áttu það sameiginlegt að möguleikar til menntunar voru litlir.

Kristín Magnúsdóttir ólst upp í Landeyjunum en flutti til Vestmannaeyja 1886 ásamt eiginmanni, einni dóttur og einum uppeldissyni.

Börnin urðu alls átta. Lífsbaráttan var oft erfið á stóru heimili og hafið gaf og tók. Kristín upplifði miklar breytingar frá nánast fornaldarsamfélagi til vélvæðingar og mikils uppgangs í sjávarútvegi. Hún lifði á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar, sá uppgang þriðja áratugar 20. aldar og loks heimskreppuna sem birtist með miklum átökum í Eyjum.

Guðrún Guðmundsdóttir, 1895-1973, með barnabarnið Þór.

Guðrún Guðmundsdóttir, 1895-1973, með barnabarnið Þór.

Guðrún Guðmundsdóttir ólst upp á Akranesi er varð snemma að fara að vinna fyrir sér. Sjö ára gömul var hún send upp í Borgarfjörð til að passa börn. Hún átti mörg systkini en berklarnir áttu eftir að leika fjölskylduna grátt. Guðrún flutti ásamt eiginmanni og fjórum börnum upp í Laxnes í Mosfellssveit árið 1927. Þar átti hún gott líf, þótt engin væri hún sveitakona, en það breyttist í síðari heimsstyrjöldinni sem hafði mikil áhrif á líf hennar og barna hennar. Ástandið og þær fórnir sem íslenskir sjómenn færðu við að flytja fisk til Bretlands koma þar við sögu.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og gerður hefur verið viðburður á Facebook.

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ sem RIKK heldur í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.