Rósa María Hjörvar flytur sjötta fyrirlestur hádegisraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands á haustmisseri 2022 en yfirskrift raðarinnar er sú sama og á vormisseri: Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi. Fyrirlestur Rósu nefnist „Eitruð karlmennska og perlufestar í óbyggðum norðursins. Hinsegin þræðir í Gróðri jarðar, Sjálfstæðu fólki og Höfundi Íslands“ og verður haldinn kl. 12.00 þann 17. nóvember í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Skáldsagan Gróður jarðar eftir Knut Hamsun kemur út árið 1917, tæplega tveimur áratugum síðar kemur út Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness sem er eins konar svar við Gróðri jarðar. Verkin eru hvort um sig gagnrýnin á sína samtíð en frá gjörólíkum sjónarhornum, annars vegar einstaklingshyggju Hamsuns og hins vegar félagshyggju Laxness. Þannig fanga þessi verk helstu umbrot 20. aldar og eru aðalpersónur þeirra fulltrúar ríkjandi karlmennskuhefðar. Þeir eru dæmi um sterka einstaklinga með sterkar skoðanir sem móta í senn skáldskaparhefð og samfélög. Árið 2001 bætist svo þriðja verkið inn í þennan bálk sem hér er til skoðunar, en það er Höfundur Íslands eftir Hallgrím Helgason þar sem einmitt er deilt á hlutverk og stöðu höfunda á borð við Laxness og Hamsun. Verkin þrjú hverfast um hugmyndir um ríkjandi karlmennskur og atbeini, en þegar nánar er að gáð birtast hinsegin þræðir í verkunum. Í verkunum er sögð saga af drengjum sem falla ekki að ríkjandi karlmennskuhugmyndum. Erindið ávarpar þessa hinsegin þræði og setur þá í samhengi við þróun hinsegin hugtaksins.

Rósa María Hjörvar er doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, þar sem hún leggur stund á rannsóknir á reiði innan íslenskra nútímabókmennta. Rannsókn hennar snýr að birtingarmyndum reiði í tengslum við hugmyndir um sjálf, kyngervi og ímynd þjóðar. Rósa sinnir stundakennslu við hugvísindasvið samhliða doktorsnámi og kennir almenna bókmenntafræði auk danskra bókmennta.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg að honum loknum.