„Ég þarf að passa í kvöld“ – Vinnan og fjölskyldan

Gísli Hrafn Atlason mannfræðingur hélt fyrirlestur fimmtudaginn 9. nóv. kl. 12.15 í Norræna húsinu undir titlinum „Ég þarf að passa í kvöld“ – Vinnan og fjölskyldan.

Atvinnuþátttaka á Íslandi er sú mesta í Evrópu, bæði meðal kvenna og karla. Fyrirvinnu/húsmóðurskiptingin er löngu liðin undir lok en það virðist ekki vera fyrr en nú að landsmenn eru að átta sig á því. 75% Íslendinga telja heppilegra fyrir samfélagið að báððir foreldrar vinni fyrir tekjum og taki sameiginlega ábyrgð á heimili og börnum.Hér hefur orðið breyting á viðhorfi landsmanna á aðeins 10 árum. Fæðingartíðni hér á landi er sú næstahæsta í Evrópu. Ísland kemur rétt á eftir Tyrklandi og þetta eru einu þjóðirnar í Evrópu sem rétt ná að viðhalda mannfjöldanum, þ.e. að fjölga sér. Þetta hefur ekki gengið alveg þrautalaust fyrir sig og tæplega 90% landsmanna telja stundum eða oft að ekki sé hægt að samræma vinnu- og fjölskylduábyrgð. Greint var frá niðurstöðum úr nýrri rannsókn á samræmingu fjölskylduábyrgðar og atvinnu. Rannsóknin var unnin á vegum Jafnréttisstofu og er hluti af Evrópuverkefni sem Ísland tók þátt í ásamt Danmörku, Ítalíu og Litháen. Rannsóknin byggist annars vegar á viðtölum og hins vegar á spurningakönnun sem gerð var fyrr á árinu.