18. október flytur Hulda Proppé, mannfræðingur, fyrirlesturinn „Ég sé kvótakerfið fyrir mér sem lopapeysu“: Kynhugmyndir og upplifun kvenna af orðræðu og auðlindastefnu í sjávarútvegi.

Útdráttur

Auðlindastjórnun í sjávarútvegi hefur haft víðtæk áhrif í íslensku samfélagi. Í rabbinu mun ég ræða um hvernig skoða megi áhrif kvótakerfisins á konur og hvernig þær upplifa og tjá þau áhrif. Ég fjalla um hvernig ríkjandi orðræða í tengslum við kvótakerfið hentar konum síður en körlum. Konur vísa í orðræðu sem byggir gjarnan á kynbundinni reynslu þeirra til að tjá sig um kvótakerfið en ekki í orðræðu hagfræðinga og stjórnmálamanna. Ég skoða athafnir og viðhorf kvenna útfrá nálgunum um sjálfsmynd (identity) og gerendahæfni (agency). Sú skoðun hefur sýnt að ákveðin ruglandi hefur átt sér stað í tengslum kvenna við kvótakerfið. Þessi ruglandi kemur meðal annars fram í sjálfsmynd fólks og athöfnum og því hvernig þessir þættir bera með sér andstöðu (resistance) við kvótakerfið samtímis því að þeir bera með sér samsömun (compliance) við kerfið og þær hugmyndir sem því liggja að baki.