Þann 23. október kl. 12:00-13:00 flytur Daphne Hampson fyrirlesturinn „Eftir kristni? Frá kynjaðri hugmyndafræði til andlegs veruleika“ í stofu 104 á Háskólatorgi.

Útdráttur

Ég held því fram að kristni sé hvorki þekkingarfræðilega raunhæf né siðferðilega ásættanleg. Í fyrri fyrirlestrinum um Kierkegaard sem ég held á vegum Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar beini ég sjónum mínum að hinum þekkingarfræðilegu þáttum og færi rök fyrir því að hinn einstaki sögulegi atburður sem kristni byggir á fái ekki staðist. Í þessum seinni fyrirlestri sem ég held við HÍ einbeiti ég mér að siðferðilega þættinum og held því fram að kristni (og önnur abrahamísk trúarbrögð) sé hugmyndafræði sem hafi viðhaldið stigveldi í tengslum guðs og manna, karla og kvenna. Simone de Beauvoir færir í anda Hegels rök fyrir því að tilvist konunnar ráðist af hlutverki hennar sem „hinn“ (þrællinn), sem hafi í för með sér að heimsmynd konunnar er mótuð af karlinum og geri að verkum að hún sjái heiminn með augum „herrans.“ Kristin trúarbrögð eru óhjákvæmilega kynjuð vegna þess að þau byggja á heimsmynd feðraveldis og heimfæra táknkerfi og viðhorf þess upp á nútímann og gera að siðferðilegum boðskap. Það er erfitt að vaxa upp úr þessu vegna þess að skilningur á guði er með orðalagi Kants nátengdur því „farartæki “ (goðsögninni) sem flytur hann. Við vitum að hugsun án tungumáls og tákna er ekki möguleg. Þess vegna verðum við að finna tjáningarmáta sem miðlar reynslu okkar af þeirri vídd veruleikans sem guð er, laus við að vera manngerður og upphafinn. Slíkur andlegur veruleiki getur höfðað til alls kyns fólks.