35181_409752511930_5112495_nFöstudaginn 24. janúar flytur Helga Þórey Jónsdóttir, MA í bókmenntafræði, fyrirlestur sem ber heitið „Bechdelpróf og strympulögmál – Hvaða ljósi varpa nýjar greiningarleiðir á stöðu kynjanna í íslenskum kvikmyndum?“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.

Síðustu ár hafa nýjar greiningarleiðir rutt sér rúms innan femínískrar kvikmyndafræði. Helst ber þar að nefna Bechdelpróf myndasöguhöfundarins Alison Bechdel og „Strympulögmál“ skáldsins og gagnrýnandans Katha Pollitt. Þessar aðferðir eru um margt ólíkar en eiga það sameiginlegt að nota „hausatalningu“ til að greina kvikmyndaverkin. Með því að nota þessar aðferðir sem útgangspunkt fyrir frekari femíníska greiningu á stöðu kvenna í kvikmyndum, draga þær fram í dagsljósið þær hefðir sem myndast hafa í framsetningu kvenna í kvikmyndum og sýna á skýran hátt þær skorður sem kvenpersónum eru settar vegna kynferðis síns. Í fyrirlestrinum mun Helga Þórey kynna þessar aðferðir og beita þeim við greiningu á vinsælum íslenskum kvikmyndum. Að auki verður nýtileiki Bechdelprófsins ræddur frekar í ljósi nýlegra niðurstaðna sem sýna að 15 aðsóknahæstu kvikmyndir síðasta árs í Bandaríkjunum stóðust allar Bechdelprófið.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Öll velkomin