Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Dr. Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Dr. Eyja Margrét Brynjarsdóttir er annar fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Aumingja Al Franken“: Hugleiðingar um bakslagsviðbrögð við #MeToo. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 20. september, frá kl. 12.00-13.00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Fljótlega eftir að #MeToo-hreyfingin fór af stað fóru að koma fram merki um andstöðu við henni og bakslag. Raddir heyrðust sem spurðu hvort það væri ekki komið nóg af þessu #MeToo, hvort það væri ekki farið að ganga of langt og margir lýstu áhyggjum af afdrifum manna sem yrðu fyrir ásökunum og því að það „mætti bara ekkert lengur“. Núna, innan við ári síðar, virðast margir ganga út frá því að #MeToo hafi runnið sitt skeið og samfélagið sé búið að gera upp öll þau mál sem þar hafi komið upp. Karlar sem voru þar afhjúpaðir snúa aftur eins og ekkert sé og þeim til varnar er spurt „Hvað átti maðurinn eiginlega að þurfa að bíða lengi?“

Í fyrirlestrinum verður þessi þróun greind með aðferðum femínískrar heimspeki með áherslu á valdatengsl og hagsmuni þeirra hópa sem eiga í hlut. Athyglinni verður beint að því hvernig það þjónar ákveðnum hagsmunum að þagga niður þá umræðu sem fór af stað með #MeToo, svo ekki sé minnst á kröfurnar um aðgerðir.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir er aðjunkt í heimspeki við deild menntunar og margbreytileika á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í heimspeki frá Cornell University í Bandaríkjunum og hefur fengist við rannsóknir og kennslu í heimspeki um árabil. Rannsóknir hennar upp á síðkastið hafa aðallega verið á sviði félagslegrar frumspeki og þekkingarfræði og femínískrar heimspeki og hún hefur nýlega stýrt og/eða tekið þátt í verkefnunum Veruleiki peninga og Femínísk heimspeki og umbreyting heimspekinnar sem styrkt voru af Rannsóknasjóði. Bók hennar The Reality of Money: The Metaphysics of Financial Value er væntanleg nú í október hjá Rowman and Littlefield International.

Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku og er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Finndu viðburðinn á Facebook!

***

Fyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er tileinkuð byltingu kvenna gegn áreitni og ofbeldi og þeim viðbrögðum, rannsóknum og aðgerðum sem af henni hafa hlotist og verður leitast við að rýna í ástæður, eðli og afleiðingar #metoo-byltingarinnar frá margvíslegum sjónarhornum.

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.