Guðrún Ingólfsdóttir er þriðji fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2021. Fyrirlestur Guðrúnar nefnist „Ástin og ágengnin. Kristrún Jónsdóttir á Hólmum (1806–1881)” og verður haldinn kl. 12.00–13.00 þann 11. nóvember í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Skáldkonan Kristrún Jónsdóttir, gjarnan kennd við Hólma í Reyðarfirði, er því miður helst kunn fyrir hlutverk sitt sem svikna kærastan hans Baldvins Einarssonar. Henni er gjarnan lýst sem melódramatískri persónu sem varð gráhærð á einni nóttu þegar hún frétti svikin við sig. Færri vita að Kristrún skildi eftir sig dágott safn af merkilegum kvæðum í eiginhandarriti. Í erindinu verður Kristrúnu sleppt lausri og hún látin sjálf segja sögu sína. Hún var nefnilega miklu flóknari persóna en haldið hefur verið fram og hafði auk þess kjark til að segja körlum til syndanna. Erindið byggir á umfjöllun um Kristrúnu í nýútkominni bók, Skáldkona gengur laus. Erindi nítjándu aldar skáldkvenna við heiminn.

Guðrún Ingólfsdóttir hefur starfað sem sjálfstætt starfandi fræðimaður frá árinu 2011 þegar hún varði doktorsritgerð sína sem kom út undir heitinu „Í hverri bók er mannsandi“. Handritasyrpur – bókmenning, þekking og sjálfsmynd karla og kvenna á 18. öld. Allan þann tíma hefur hún verið gestafræðimaður á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Árið 2016 kom út bók hennar Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar. Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld og nú í byrjun október kom út bókin sem efni fyrirlestursins er fengið úr: Skáldkona gengur laus. Erindi nítjándu aldar skáldkvenna við heiminn.

Að fyrirlestri loknum verður upptaka gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube-rás Hugvísindasviðs.

25. ágúst á þessu ári voru liðin 30 ár frá stofnun RIKK, eða Rannsóknastofu í kvennafræðum eins og stofnunin hét á fyrstu starfsárum sínum. Að því tilefni tekur hádegisfyrirlestraröð stofnunarinnar á haustmisseri 2021 stöðuna á jafnréttisrannsóknum þar sem litið er til þess hvert kvenna-, kynja- og jafnréttisrannsóknir stefna með áherslu á nýja rannsakendur á þessu sviði. Umfjöllunarefni fyrirlestrana eru fjölbreytt og endurspegla breiddina í jafnréttisrannsóknum.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á póstlista RIKK hér og fá tilkynningar um viðburði senda í tölvupósti.