Þann 11. október hélt Helga Gottfreðsdóttir, lektor í ljósmóðurfræði, fyrirlesturinn Ákvarðanataka um fósturskimun – mismunandi sýn verðandi mæðra og verðandi feðra í Hátíðasal Aðalbyggingu.

Í gegnum tíðina hefur ráðgjöf um barneignir beinst að konum fyrst og fremst. Á síðari árum hefur þátttaka verðandi feðra verið skoðuð í tengslum við meðgöngu og fæðingar. Þrátt fyrir að áhersla hafi aukist á þátttöku þeirra í meðgönguvernd sýna erlendar rannsóknir að þeir upplifa sig oft utangátta í þessu ferli. Í upphafi meðgöngu stendur verðandi foreldrum hér á landi nú til boða hnakkaþykktarmæling sem skimar fyrir ákveðnum frávikum hjá fóstri, sérstaklega litningagöllum eins og Downs heilkenni. Mikill meiri hluti kvenna þiggur skimunina en erlendar rannsóknir sýna að þegar að skimunin er boðin sem hluti af þjónustu heilbrigðiskerfisins við barnshafandi konur þá telja þær sig jafnvel bera ábyrgð á því að nýta hana. Hér á landi hefur ákvarðanataka verðandi foreldra varðandi fósturskimun lítið verið skoðuð, og fáar erlendar rannsóknir hafa verið gerðar á viðhorfum verðandi feðra varðandi skimun fyrir frávikum hjá fóstri. Erindið byggði á hluta niðurstaðna rannsóknar sem fólst í að skoða ákvarðanatöku verðandi foreldra varðandi fósturskimun. Sá hluti sem kynntur var tengdist sérstaklega sýn verðandi feðra á fósturskimun og samspili verðandi foreldra í ákvörðun um skimunina í upphafi meðgöngu.